138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[16:33]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum sjávarútvegsmál og þrátt fyrir að hér sé verið að ræða afmarkaðan þátt þeirra liggja samt undir hugmyndir stjórnarflokkanna um svokallaða fyrningarleið. Hún er eitt af því sem hefur fengið litla umræðu í þjóðfélaginu, alveg eins og skattamálin og skattbreytingarnar þegar ríkisstjórnarflokkarnir fóru í þá vegferð að eyðileggja skattkerfið eins og við þekkjum það. Þetta er nokkuð sem stjórnarflokkarnir verja með þeim orðum að þeir hafi fengið lýðræðislegt umboð við síðustu alþingiskosningar til að gera þetta. Þær kosningar voru ekki við kjöraðstæður og ég held að þegar upp verður staðið muni menn telja það afskaplega mikil mistök að hafa farið þá leið. Við fórum sömu leið og frændur vorir Finnar sem var búið að vara okkur alveg sérstaklega við. Ég held í rauninni að þetta mál sem hér er rætt sé skilgetið afkvæmi þess að við fórum óskynsamlega leið. Við sitjum hér nú með duglitla ríkisstjórn. Í stað þess að takast á við raunverulegan vanda þjóðfélagsins, ræða það sem skiptir máli og taka á því sem þarf að taka á er hún að koma ýmsum pólitískum dægurmálum í gegn sem núverandi stjórnarliðar hafa kannski rætt á fundum sínum í gegnum tíðina en sem svo sannarlega hefur ekki verið mikil umræða um í þjóðfélaginu. Svo sannarlega hefur verið umræða um sjávarútvegsmál á undanförnum árum og áratugum en það hefur ekki verið farið djúpt í umræðuna um hvað eigi að koma í staðinn ef menn ætla að kollsteypa núverandi fiskveiðistjórnarkerfi. Svo sannarlega eru menn ekki búnir að ræða þessa fyrningarleið og afleiðingar hennar eins og nauðsynlegt er vegna þess að hér er um að ræða gríðarlega mikla breytingu á því fyrirkomulagi sem er til staðar núna og mun hafa mjög alvarlegar afleiðingar.

Ég var svo lánsamur, virðulegi forseti, að vera um daginn á fundi í Vestmannaeyjum. Á honum voru 500–600 manns. Það er sambærilegt og að 16.000 Reykvíkingar hefðu fundað hér út af einu máli. Til fundarins boðuðu sjómenn, bæjarfélagið og útgerðarmenn og þangað kom fjölbreyttur hópur fólks, fjölbreyttur hópur bæjarbúa með það að markmiði að verja Vestmannaeyjar. Vestmannaeyjar eru blómlegt og gott bæjarfélag sem hefur byggt og mun á næstu árum og áratugum fyrst og fremst byggja afkomu sína á sjávarútvegi. Það er algjörlega skýrt að áherslur ríkisstjórnarinnar eru hrein og klár atlaga að bæjarfélagi eins og Vestmannaeyjum. Það kemur illa við okkur Reykvíkinga og illa við alla landsmenn, en sannarlega er þetta hrein og klár atlaga að sjávarbyggðum eins og Vestmannaeyjum.

Menn gleyma kannski þegar þeir ræða þetta að aflamarkskerfið er fyrir þjóðina, ástæðan fyrir því að menn enduðu á aflamarkskerfinu er sú að menn voru búnir að reyna mjög margt annað sem gekk afskaplega illa. Það er mjög mikilvægt að menn rifji það upp. Af hverju segi ég að þetta sé fyrir þjóðina? Þetta þýðir 200 milljarða kr. útflutningstekjur. Munurinn á okkur og mörgum öðrum þjóðum felst í því að útgerðirnar sjálfar sjá um hagræðinguna en t.d. Evrópusambandið, svo við tökum eitt dæmi, og flestar þær þjóðir sem við berum okkur saman við gera það í gegnum ríkissjóð. Við vorum svo sannarlega í því áður. Það var okkur að vísu alveg gríðarlega dýrt á sínum tíma og við sem erum búin að fylgjast með stjórnmálum í langa tíð — ég var ekki kominn á þing þegar þetta var rætt, ætli það séu ekki bara hæstv. forsætisráðherra og kannski hæstv. fjármálaráðherra og hv. þm. Árni Johnsen sem tóku umræðuna þegar menn voru með Úreldingarsjóð og alla hina sjóðina. Síðan hefur hagræðingin orðið í gegnum sjávarútveginn sjálfan. Stór hluti og örugglega stærsti hluti af skuldsetningu sjávarútvegsins felst í því að menn eru að hagræða innan greinarinnar. Það er m.a. verið að kaupa menn út eins og það er stundum kallað en sömuleiðis eru menn að bæta þau tæki og tól sem nauðsynleg eru við veiðarnar. Ég efast um að margar þjóðir eigi jafnglæsilegan flota og aðbúnað til að standa að sjávarútvegi.

Það sem hefur gerst á Íslandi á undanförnum áratugum er að nú hefur rekstrarleg ábyrgð verið ágætlega tryggð. Við erum með 5000–6000 sjómenn með góða afkomu. Það er stöðugleiki í fiskvinnslu. Við munum þá umræðu þegar fiskvinnslufólk var með mjög óstöðuga vinnu, það er ekki lengur til staðar. Tæknivæðing er mikil, þetta eru öflug fyrirtæki, gæði í fyrirrúmi og mjög sterk markaðsstaða.

Ástandið fól áður í sér ófyrirsjáanlegar sveiflur í veiðum sem voru undirrót óstöðugleika í efnahagslífinu og verðbólgu. Allir landsmenn fundu fyrir því þegar breytingar og sveiflur urðu í veiðum. Mettap var af útgerðinni jafnvel þó að það væri metveiði. Fólk er fljótt að gleyma þessu. Það var metveiði en samt sem áður mettap. Afkoma í sjávarútvegi var sífellt áhyggjuefni stjórnvalda og endalaust var gripið til nýrra ráðstafana vegna skulda og yfirvofandi rekstrarstöðvunar. Þrátt fyrir að við værum ekki með þetta kerfi sem við erum með núna var sjávarútvegurinn sannarlega skuldsettur þá. Það hafði t.d. áhrif á bankana sem voru þá ríkisbankar.

Menn tala um frjálsan aðgang. Að hverju var þessi frjálsi aðgangur og hver græddi á því fyrirkomulagi? Hver var betur settur? Þjóðin? Nei. Ekki með nokkrum hætti er hægt að halda því fram að þjóðin hafi verið betur sett fyrir aflamarkskerfið. Það er algjörlega útilokað að halda því fram. Væri einhver betur settur núna ef tvöfalt fleiri ynnu að því að búa til sömu verðmæti í sjávarútvegi? Væri einhver betur settur ef þeir sem þurfa að hætta rekstri í sjávarútvegi neyddust í gjaldþrot vegna banns við kvótasölu? Hver græðir á því? Þjóðin? Nei. Hver græðir á því ef fyrirgreiðslupólitík verður í fyrirrúmi sem óhjákvæmilega mun gerast ef menn fara í fyrra horf? Hver mundi hagnast á því, virðulegi forseti, ef endalausar pólitískar deilur væru um einstök fyrirtæki og byggðarlög eins og var áður? Ég held að það sé mikið atriði að stjórnarliðar svari því. Um það snýst málið.

Ég vek athygli á því að í stjórnarsáttmálanum segir að það eigi að innkalla aflaheimildir og endurráðstafa þeim á næstu 20 árum. Þetta á að taka gildi 1. september á þessu ári. Það á að stofna auðlindasjóð sem fer með ráðstöfun innkallaðra veiðiréttinda í eigu þjóðarinnar eins og það er kallað. Veiðiheimildir skulu ákvarðast af nýtingarstefnu og aflareglu. Það segir í stjórnarsáttmálanum.

Samkvæmt stöðugleikasáttmálanum frá 25. júní 2009 var skipuð sáttanefnd og það var áréttað í honum að málin yrðu í sáttafarvegi. Það var ítrekað í yfirlýsingu 28. október að engin breyting væri á sáttafarvegi og sérstök áhersla lögð á mikilvægi góðra rekstrarskilyrða í sjávarútvegi. Blekið var varla þornað, virðulegi forseti, þegar ráðherra lagði fram frumvarp um veigamiklar breytingar í sjávarútvegi og það stjórnarfrumvarp var samþykkt í ríkisstjórnarþingflokkunum. Þær breytingar eru ekki til bóta en þar er alvarlegast skötuselsmálið sem við erum að ræða hér. Þar og hér er talað um, virðulegi forseti, að nýr heildarkvóti verði 80% umfram ráðgjöf Hafrós.

Virðulegi forseti. Það er ástæða fyrir því að þessi stjórn er kölluð öfugmælastjórnin. Í stjórnarsáttmálanum er sérstaklega talað um að veiðiheimildirnar skuli ákvarðast af nýtingarstefnu og aflareglu. Þessir flokkar eru búnir að starfa saman núna í eitt ár en stjórnarsáttmálinn er mun yngri. Þetta mundi heita einhvers staðar að menn væru að fara þvert gegn umhverfissjónarmiðum. Það er kannski allt í lagi, skötuselurinn er kannski ekki fallegur fiskur og bara sjálfsagt að hreinsa hann upp en þetta er ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að fiska stofninn niður. Þetta er ákvörðun um að fara þvert á nýtingarstefnu og aflaregluna og það er mjög sérkennileg umhverfisstefna.

Það á að selja þetta í 5 tonna hlutum og 120 kr. kílóið. Hver getur gert út á beinar skötuselsveiðar með því að borga 120 kr. á kíló fyrir kvótann?

Virðulegi forseti. Þetta mun koma beint niður á sjómönnum.

Það sem er búið að gerast er að frumvarpinu var mótmælt og mælst til þess að málið færi í sáttanefndina. Hver voru viðbrögðin, virðulegi forseti? Því var hafnað. Það er búið að rífa þetta mál út úr nefnd eins og við þekkjum og senda það núna til 2. umr. Enn er mælst til þess að sáttanefnd fái málið. Hvað ætlar samráðsstjórnin að gera, samráðsstjórnin sem skrifaði undir það að vera með sérstaka sáttanefnd til að ræða þessi mál? Hún segir nei. Öfugmælastjórnin segir nei.

Það sem gerist, virðulegi forseti, er einfaldlega það að menn ráðast sérstaklega að sjávarbyggðunum og menn ráðast að sjómönnum og þjóðinni. Til dæmis hefur verið upplýst í viðskiptanefnd svo því sé alveg til haga haldið, og það kom fram opinberlega ef ég man rétt, að núverandi bankastjóri Landsbankans hafi bent á að bankinn mundi aldrei þola það ef fyrningarleiðin yrði farin. Nú finnst kannski öfugmælastjórninni að við höfum sett svo litla fjármuni í ríkisbankann — ef ég man rétt voru það 126 milljarðar kr. — að það sé allt í lagi að setja eitthvað meira, það sé eitthvað aflögu einhvers staðar. Það má vera en það er svo sannarlega ekki sjónarmið þeirra sem taka á þessu af ábyrgð.

Í ofanálag er sett útflutningsálag og með því fara menn áratugi aftur í tímann. Upphaflega var það sett til að ná jafnræði milli siglingaskipa og annarra. Niðurfellingu á því var teflt saman við tollalækkanir á sjávarvörum til Evrópusambandsins. Á þessum fundi í Vestmannaeyjum sem ég byrjaði að tala um hélt margt gott fólk góðar ræður, m.a. fulltrúi sjómanna og bæjarstjórinn sem þarf að gæta hagsmuna Vestmannaeyinga. Ég ætla að lesa örstutt úr ræðu bæjarstjórans, Elliða Vignissonar, með leyfi forseta:

„Íbúar í Vestmannaeyjum, og ég þar á meðal, eru hreinlega óttaslegnir. Í þetta skipti koma náttúruöflin ekki við sögu, heldur verk mannanna. Ég veit að ég þarf ekki að útskýra þetta mál fyrir ykkur sem hér eruð. Þið þekkið sjávarútveginn, skiljið gangverk hans og eruð mörg hver sjálf hluti af því. Því miður er það hins vegar svo að ýmsir þeir sem miklu valda um örlög þessarar höfuðatvinnugreinar vita ekki ýkja mikið um hana og forsendur atvinnuvegarins yfirleitt og láta sig litlu varða varnaðarorð vegna óhjákvæmilegra afleiðinga ákvarðana sinna og gerða. Hin svokallaða fyrningarleið flokkast ekki lengur undir pólitískar vangaveltur og kaffihúsaspeki, heldur er yfirlýst stefna ríkisstjórnar og felur það í sér að 5% af aflaheimildum verða leyst til ríkisins og þeim deilt síðan aftur út „á sanngjarnari máta“. Hver sú sanngirni er veit ég ekki.“

Síðan spyr bæjarstjóri: „Er það sanngjarnt að breyta smávægilega „reglugerð um skötuselskvóta“ innan veggja ráðuneytisins án þess að löggjafarsamkoman hafi fjallað um málið með þeim afleiðingum að fyrirtækin í Vestmannaeyjum eru svipt 400 milljónum króna, rétt um 100.000 krónum á hvern einasta íbúa?“

Hér er þingmaður kjördæmisins, þingmaður Vestmannaeyinga, hv. þm. Atli Gíslason, og svarar kannski þessari spurningu.

Aftur spyr bæjarstjóri: „Er það sanngjarnt gagnvart sjómönnum í Vestmannaeyjum að skerða með þessu tekjur þeirra um 140 milljónir króna? Er það sanngjarnt að skella 5% álagi á útflutning á ferskum fiski og skemma með því arðbæra markaði sem fyrst og fremst við Eyjamenn höfum byggt upp? Sú ákvörðun ein og sér kostar samfélagið hér um 200 milljónir króna og skerðir tekjur sjómanna um nálægt 70 milljónir króna. Er þetta sanngirnin sem fylgjendur þessara gjörninga klifa á?“

Virðulegi forseti. Þetta er nokkuð sem stjórnarliðar þurfa að svara því að á bak við þetta mál sem hefur ekki farið hátt — það fer ekki hátt í fjölmiðlum núna frekar en mörg önnur stór mál — er fólk. Það liggur alveg fyrir og er auðvelt að reikna út hvaða afleiðingar þetta hefur. Það er ekkert skrýtið að 500–600 manns mæti á baráttufund í Vestmannaeyjum til að reyna að koma í veg fyrir þessa atlögu að þeim útvegsbæ. Þetta er atlaga að Vestmannaeyingum. Vestmannaeyjar eru einn af útvegsbæjunum á Íslandi. Reykjavík er annar, en við höfum hins vegar hér fleiri stoðir undir atvinnulífinu en eru þar.

Það skal engan undra að þessi ríkisstjórn sé kölluð öfugmælastjórnin vegna þess að henni virðist algjörlega fyrirmunað að fara eftir því sem hún sjálf segir. Það er í rauninni rannsóknarefni að hlusta á hæstv. ráðherra og hv. þingmenn stjórnarliðsins tala þegar svo ber undir um samráð og samvinnu og svíkja síðan allt sem þeir geta þegar að slíku kemur.

Ég rakti áðan að sérstaklega hefði verið samið um það í stöðugleikasáttmálanum að hafa sáttanefnd. Þegar menn voru búnir að skrifa undir ítrekun á þessu ákvæði, af ástæðu, 28. október, blekið varla þornað, kom ríkisstjórnin fram með þetta mál og neitar að fara með það í sáttanefnd. Það er hvað eftir annað búið að fara fram á það og ég held að hv. þingmenn þurfi að útskýra fyrir fólkinu í landinu, sérstaklega því sem hefur beina aðkomu að þessu, eins og íbúum útgerðarbæja, af hverju þeir skrökvuðu að þjóðinni. Af hverju skrökvuðu ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn að þjóðinni? Af hverju sögðu þeir 28. október ekki orð um þetta, skrifuðu þvert á móti að þeir ætluðu að hafa samráð um þetta í sérstakri sáttanefnd? Síðan hafa þeir ákveðið að ganga á bak þeirra orða.

Það er ein af þessum fjölmörgu spurningum sem verður að svara og ég vonast til þess að stjórnarliðar og hæstv. ráðherra muni gera það.