138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[16:55]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst út af þessum 120 kr., menn þurfa væntanlega að greiða meira en það að því gefnu að þeir missi kvótann því að það er fjárhagslegur skaði líka. Þeir hafa væntanlega lagt út fyrir honum eða öðrum sambærilegum á einhverjum tímapunkti.

Varðandi aflamarkskerfið, þegar menn tala almennt um fiskveiðistjórnarkerfið, þá held ég að almenn málvenja hafi verið sú að menn hafi gert ráð fyrir því fyrirkomulagi eins og það er núna. Þá er ég að vísa í frjálsa framsalið sem vinstri stjórnin setti á á sínum tíma og er að vísa í það fyrirkomulag sem við erum með núna og erum að breyta. Ég er hins vegar ekki að fara af því þegar menn tala um breytingar — ég leyfði mér að tala almennt um sjávarútvegsstefnu ríkisstjórnarinnar og vísaði líka í útflutningsálagið, ég hefði að vísu getað vísað í strandveiðarnar sömuleiðis en ég gerði það ekki í þessari ræðu — að ég vissi ekki að deilur væru um það að við værum að breyta frá því fyrirkomulagi sem er núna. Væntanlega væri þetta mál ekki flutt ef menn ætluðu að hafa þetta eins og áður.

Varðandi leiguna almennt get ég alveg sagt það, svo því sé til haga haldið, að við höfum ekki náð fullkomnun í þessu fiskveiðistjórnarkerfi. Einn gallinn að mínu áliti er að við erum með of lága veiðiskyldu. Mér hefur fundist að það sem snýr að leigunni, ég átta mig á því að ákveðin rök eru fyrir jafnmikilli leigu og um er að ræða en mér finnst þau ekki vera nógu sterk. Ég get ekki séð annað en að það komi niður á einhverjum þegar menn segja að leiguverð sé hátt, það kemur niður á sjómönnum með einum eða öðrum hætti. Ég hefði talið eðlilegra að við færum þá leið að hækka veiðiskylduna og koma í veg fyrir þann agnúa sem hv. þingmaður var að vísa í. En við skulum ekki, þó að við þurfum að gera að sári á fæti, taka fótinn af. Ég held að það sé ekki góð leið.