138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

305. mál
[17:37]
Horfa

Flm. (Ásbjörn Óttarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða. Það gengur í stuttu máli út á að skipuð verði svokölluð aflaráðgefandi nefnd sem skili tillögu til hæstv. sjávarútvegsráðherra á hverju ári samhliða tillögum Hafrannsóknastofnunar þannig að hæstv. sjávarútvegsráðherra muni hafa þær til viðmiðunar og þau gögn sem liggja að baki þeim tillögum. Meðflutningsmenn með mér á þessu frumvarpi eru allir þingmenn Sjálfstæðisflokksins.

Í 2. gr. frumvarpsins stendur, með leyfi forseta:

„Ráðherra skal skipa aflaráðgefandi nefnd og leita til hennar um tillögur að heildarafla sem veiða má á ákveðnu tímabili eða vertíð, sbr. 1. mgr. 3. gr.

Nefndin skal við tillögugerð sína m.a. byggja á reynslu og þekkingu sjómanna og þeim gögnum sem verða til við störf þeirra á vettvangi og leggja áherslu á nauðsyn þess að nýta fiskstofna með skynsamlega nýtingu að leiðarljósi og að samræmis sé gætt milli tegunda.

Í nefndinni sitja fimm fulltrúar og skulu eftirtaldir aðilar tilnefna einn fulltrúa hver: Félag skipstjórnarmanna, Landssamband íslenskra útvegsmanna, Landssamband smábátaeigenda, Sjómannafélag Íslands og Sjómannasamband Íslands. Nefndin kýs sér formann úr eigin röðum.“

Hér skal þó tekið fram að þó að í þessu frumvarpi sé talað um að skipa fimm fulltrúa óska ég eftir að hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd skoði við meðferð frumvarpsins hvort hugsanlega mætti fjölga þessum fulltrúum. Aðalatriðið er þó að þekkingin sem kemur úr sjávarútveginum skili sér inn á borð til hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Í greinargerð með frumvarpi þessu þar sem færð eru rök fyrir því af hverju þetta skuli gert kemur eftirfarandi fram:

Með frumvarpi þessu er lagt til að lögum um stjórn fiskveiða verði breytt á þann hátt að þegar hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra ákveður heildarafla hvers fiskveiðiárs skuli hann leita tillagna hjá aflaráðgefandi nefnd sem sé skipuð af hagsmunaaðilum. Er því lagt til að nefndin sé skipuð fimm fulltrúum þar sem Félag skipstjórnarmanna, Landssamband íslenskra útvegsmanna, Landssamband smábátaeigenda, Sjómannafélag Íslands og Sjómannasamband Íslands tilnefna einn fulltrúa hver. Skulu tillögur nefndarinnar liggja fyrir á sama tíma og tillögur Hafrannsóknastofnunar en þó er gerð sú undantekning í ákvæði til bráðabirgða að nefndin geri jafnframt tillögu fyrir yfirstandandi fiskveiðiár og skili þeim til ráðherra sem geti þá gert breytingar á fyrri ákvörðun um heildarafla.

Lagt er til að nefndinni verði gert að byggja tillögugerð sína m.a. á reynslu og þekkingu sjómanna og þeim gögnum sem verða til við störf þeirra á vettvangi tillögugerðar. Með þessu yrði tryggt að reynsla sjómanna og þekking þeirra nýttist við ákvörðun heildarafla. Nefndin getur þó jafnframt leitað í önnur gögn eða til þeirra aðila sem þeir telja þörf á. Áhersla er lögð á að tillögur nefndarinnar miði að því að nýta fiskstofna með skynsamlega nýtingu að leiðarljósi þannig að þeir verði hvorki ofnýttir né vannýttir. Þá verði kveðið á um að nefndin gæti að samræmi milli tegunda í tillögum sínum.

Gert er ráð fyrir að kostnaður af starfi aflaráðgjafarnefndar verði greiddur af þeim hagsmunaaðilum sem tilnefni fulltrúa í nefndina.

Á undanförnum árum hefur sterk umræða farið fram um ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar. Bent hefur verið á að ráðgjöfin endurspegli ekki álit þeirra sem starfa á vettvanginum allan ársins hring, sjómanna og skipstjórnarmanna. Aflaráðgefandi nefnd er ætlað fyrir 1. maí ár hvert að senda hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra tillögur sínar um heildarafla sem æskilegt er að komi til úthlutunar á næsta fiskveiðiári. Ráðgjöf nefndarinnar verður byggð á reynslu og þekkingu sjómanna sem er þjóðinni ómetanleg og þeim gögnum sem verða til við störf þeirra á vettvangi. Sjómenn hafa mikla almenna þekkingu á lífríkinu í hafinu auk þess sem sjómenn hafa víðtæka reynslu og þekkingu á öllu því sem viðkemur veiðum, ástandi einstakra fiskstofna og veiðisvæða og skilyrðum í sjó. Þá hafa orðið gríðarlegar breytingar á undanförnum árum hvað varðar tækninýjungar um borð í skipum sem lúta að upplýsingum um ástand sjávar, skráningu afla og nýtingu svo fátt eitt sé nefnt. Öflugir gagnagrunnar hafa þannig orðið til sem auðvelda sjómönnum, skipstjórum og útgerðarstjórum að lesa í lífríkið. Áður fyrr varðveittust upplýsingar eingöngu í dagbókum sjómanna og minni þeirra. Með starfi nefndarinnar yrði til vettvangur fyrir úttekt úr reynslubanka sjómanna sem byggst hefur upp í áratugi, þekkingu þeirra á veiðum og aflabrögðum, ástandi einstakra fiskstofna og veiðisvæða, skilyrðum í sjónum og almennt um lífríkið í hafinu.

Tillögum og ráðgjöf aflaráðgefandi nefndar er ætlað að styrkja ákvörðun ráðherra um ákvörðun á heildarafla. Nefndinni er ætlað að brúa þá gjá sem nú er milli veiðiráðgjafar Hafrannsóknastofnunar og reynslu sjómanna á stærð einstakra fiskstofna, auk þess að bæta við þekkingu vísindamanna Hafrannsóknastofnunar með samanburði við niðurstöður togararalls.

Samhliða tillögu til ráðherra er augljóst að miklum upplýsingum verður safnað sem geta nýst í gerð gagnagrunns um þá þekkingu og reynslu sem sjómenn afla sér í daglegri umgengni við fiskstofna umhverfis landið, auk þess að nýtast Hafrannsóknastofnun við störf sín. Gagnagrunn af þessu tagi mætti vinna áfram í samvinnu við háskólasamfélagið og mundi hann því ekki eingöngu nýtast til frekari tillögugerðar og gera nefndina færari um að meta þolmörk fiskstofnanna heldur einnig til framtíðar í vísindum, rannsóknum og kennslu.

Virðulegi forseti. Ég er búinn að fara yfir greinargerðina með frumvarpinu og kom inn á að þar sem þetta gæti líka nýst háskólasamfélaginu til upplýsingar í framtíðinni mætti að mínu viti skoða mjög alvarlega hvort t.d. Háskólasetri Vestfjarða yrði ekki falið að halda utan um starf nefndarinnar og nýta þær upplýsingar sem mundu skapast við þennan gagnagrunn og þær upplýsingar sem sjómenn og þeir sem starfa í greininni mundu koma áleiðis til hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Nú er ástandið þannig, virðulegi forseti, á miðunum í kringum landið að enginn samhljómur er á milli útgerðarmanna eða sjómanna og Hafrannsóknastofnunar. Í Breiðafirði og á mörgum öðrum stöðum í kringum landið eru bátar fullir af fiski dag eftir dag og ekki dæmi um önnur eins aflabrögð á þessum tíma ársins. Að mínu viti segir það allt til um það hversu mikið barn síns tíma togararallið í raun og veru er. Ég held reyndar að það væri líka mjög hollt fyrir vísindasamfélagið að fá sjónarmið þeirra sem starfa á vettvangi, þ.e. sjómannanna sjálfra, mannanna sem eru í útgerðinni, og nýta sér þær upplýsingar til framdráttar og til þess að styrkja sig í vísindum sínum.

Það er til gríðarlegt magn af upplýsingum í sjávarútvegi sem er verið að keyra upp í gagnagrunna á hverjum degi sem við nýtum okkur ekki sem skyldi í dag. Til að mynda keyra margar fiskvinnslustöðvar nákvæmlega og skrá inn í gagnagrunna sína hvar fiskurinn er veiddur, hvernig ástandið er á honum, þ.e. nýtingin, og þar fram eftir götunum. Þeir eru með samanburð, þeir eru með upplýsingar um hitastig og þar fram eftir götunum, þetta eru upplýsingar sem við nýtum okkur ekki við þau skilyrði eins og við ættum að gera núna. Það er núna mikið alvörumál, virðulegi forseti, að vannýta fiskstofnana eins og ég tel að við séum að gera við þorskstofninn.

Mig langar aðeins að fara hér yfir af hverju ég tel mjög mikilvægt að menn skipi þessa nefnd. Þetta er búin að vera mín einlæga trú og skoðun í mjög langan tíma og ég tel þetta mjög mikilvægt líka til að hafa ákveðið aðhald á vísindasamfélagið og eins til að nýta þekkingu og reynslu sjómanna alls staðar í kringum landið.

Nú er áætlað að þorskstofninn sé í kringum 702.000 tonn. Ég styðst við það sem kemur fram í upplýsingum Hafrannsóknastofnunar þó að ég telji að hann sé stærri, en ég ætla að halda mig eingöngu við það. Ef við veiðum í dag 150.000 tonn mun stofnstærð þorsksins miðað við árið 2011 og þær forsendur sem Hafrannsóknastofnun gefur sér verða 762.000 tonn. Ég spyr sjálfan mig að því, virðulegi forseti, við núverandi skilyrði, samfélagsástand og þau gögn sem eru hjá Hafrannsóknastofnun: Af hverju erum við að byggja þorskstofninn upp svona hratt á þessum tímum? Ég tel að með því að bæta við 40.000 tonnum af þorski eins og ég er búinn að segja margoft í þessum ræðustóli yrði þorskstofninn, sem er í dag 702.000 tonn, á árinu 2011 samkvæmt gögnum Hafrannsóknastofnunar 716.000 tonn. Þá lít ég svo á að við séum ekki að taka neina áhættu, við erum eingöngu að segja: Við ætlum að byggja þorskstofninn hægar upp en gert er ráð fyrir með því að veiða 150.000 tonn. Það er nú allt sem þetta fjallar um.

Allir hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar í þessum sal sjá og vita að ef við nýtum ekki þennan tekjustofn okkar og þær sterku stoðir sem við höfum til að byggja okkur upp eftir efnahagshrunið er okkur mikill vandi á höndum. Við eigum að nýta þessa tekjulind okkar, það eru markaðslegar forsendur til að gera það, og ekki bara það, við verðum líka að setja hlutina í samhengi vegna þess að á síðasta kvótaári skáru menn ýsuaflann niður um einn þriðja. Menn skertu ufsann um rúm 20%, grálúðuna um 20% og þar fram eftir götunum. Með þeim tillögum sem ég hef talað fyrir hér nokkuð lengi mundum við skapa aflaverðmæti inn í þjóðarbúið upp á 40 milljarða kr. sem þýðir þreföldun inn í landsframleiðsluna af því að við höfum öll skipin, fiskvinnsluhúsin og markaðina. Þetta eitt og sér mundi skila ríkissjóði í kringum 12 milljörðum kr. í beinum tekjum. Hagfræðiprófessor reiknaði 8–16 milljarða kr. fyrir mig þannig að ég tók miðjuna, hvorki hæstu töluna né þá lægstu. Það yrðu beinar tekjur til þjóðarinnar.

Inn í þessar tölur eru ekki reiknuð þau áhrif sem þetta hefði á atvinnuleysi eða hvaða áhrif þetta hefði á störf sveitarfélaganna, hafnirnar og þar fram eftir götunum, veltuáhrifin þar. Þau eru að hluta til fyrir utan þetta. Þó að við mundum halda okkur eingöngu við að segja að þetta mundi skapa þessar tekjur í dag sjáum við það öll í hendi okkar hvað þetta þýddi fyrir samfélag okkar í núverandi ástandi. Ég ítreka að ég mundi aldrei nokkurn tímann tala hér fyrir tillögum sem ég hefði ekki trú á að væru skynsamlegar, ég mundi aldrei mæla fyrir því að við gengjum of nærri þorskstofninum við þessi skilyrði sem eru núna til að bjarga okkur upp úr kreppunni, heldur eingöngu vegna þess að ég hef trú á að þetta sé í lagi. Ég hef reyndar persónulega trú á því að það mætti fara enn þá lengra en hér er ég eingöngu að notast við tölulegar staðreyndir Hafrannsóknastofnunar.

Mig langar til að setja hlutina enn frekar í samhengi gagnvart þorskinum. Þegar við vorum á viðmiðunarárunum, eins og oft er kallað, frá 1981–1983, áður en við settum kvótakerfið á, eftir að þessi svarta skýrsla Hafrannsóknastofnunar birtist, veiddum við árlega 370.000 tonn af þorski. Á yfirstandandi fiskveiðiári veiðum við 150.000 tonn. Kvótakerfið var sett á 1984 eftir þessa svörtu skýrslu Hafrannsóknastofnunar eins og ég sagði. Í henni sagði í stuttu máli að ef ekki yrði gripið til róttækra aðgerða mundi þorskstofninn endanlega hrynja við Íslandsstrendur. Það var orsök þess að menn settu á kvótakerfið. Menn munu geta rifjað það upp að engir voru ósáttari við það en útgerðarmenn og sjómenn vegna þess að þá var frelsi þeirra til veiða skert um 40% á einu ári. Það sjá allir í hendi sér að þeir sem fá 40% launalækkun eða tekjuskerðingu bregðast við með þeim hætti.

Þegar við settum kvótakerfið á 1983 var samkvæmt tölum Hafrannsóknastofnunar hrygningarstærð þorskstofnsins áætluð 130.000 tonn. Árið 2008 var stærð hrygningarstofnsins 253.000 tonn þannig að hrygningarstofninn hefur nærri því tvöfaldast eftir að við settum kvótakerfið á. Svo geta menn deilt endalaust um það hversu skynsamlegt það er og hvort það eigi að gera með þessum eða öðrum hætti en eigi að síður er þetta niðurstaðan út úr rannsóknum Hafrannsóknastofnunar og það ber að halda því líka til haga þegar við ræðum þessa hluti.

Svo getum við haldið líka áfram. Við sem stundum útgerð og veiðar og vinnslu í Breiðafirði höfum mjög gagnrýnt það í áranna rás hversu gegndarlausar loðnuveiðar menn hafa leyft sér vegna þess að það hefur áhrif á stærð þorskstofnsins. Við höfum gagnrýnt mjög að menn hafi gengið óvarlega fram í því að veiða alltaf allt ætið frá fiskinum. Núna hef ég til að mynda töluverðar áhyggjur af því að menn eru farnir að veiða gulldeplu sem er að sjálfsögðu ekkert annað en fæða fisksins. Þess vegna er svo mikilvægt að mínu viti að skipa svona nefnd af því að þessi sjónarmið koma alltaf inn frá þeim sem starfa í greininni. Það er alveg eins með sjávarútveg og allar aðrar greinar, fólk sem starfar í honum hefur að sjálfsögðu meiri reynslu og þekkingu af því sem fer fram í greininni sjálfri. Það gefur algjörlega augaleið. Við þurfum að setja hlutina í samhengi, ekki vera eingöngu með eitt togararall, fara síðan suður til Reykjavíkur með niðurstöðurnar sem unnið er úr þar og gerð tillaga til hæstv. ráðherra sem oft og tíðum fer að mínu viti allt of mikið eftir því sem lagt er til.

Síðan langar mig í lokin aðeins að renna yfir það sem hefur gerst í gegnum tíðina. Mig langar að nefna tvö dæmi þó að ég geti nefnt mörg, annars vegar það sem hefur gerst í úthlutun og veiði á ufsa og hins vegar ýsu. Á árunum 1999–2003 lagði Hafrannsóknastofnun til að veidd yrðu í heildina á þessum árum 110.000 tonn af ufsa. Niðurstaðan varð sú að sjávarútvegsráðherra á þessum árum fór ekki eftir tillögum Hafrannsóknastofnunar og í staðinn voru veidd 145.000 tonn af ufsa, þ.e. að á þessu fjögurra ára tímabili fór veiðin 32% fram úr ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar. Hver hefðu þá verið eðlileg viðbrögð, að maður mundi ætla? Eðlileg viðbrögð hefðu verið þau að Hafrannsóknastofnun hefði sagt: Nú erum við búin að ganga allt of nærri stofninum, við skulum minnka veiðarnar. Það er dálítið merkilegt að skoða í ljósi þessarar sögu að þegar búið er að veiða 32% umfram ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar á fjögurra ára tímabili leggur Hafrannsóknastofnun til 43% aukningu á ufsakvóta á milli ára. Hvað segir þetta okkur um vísindin? Þetta segir okkur að vísindin eru það ung að menn geta ekki slegið á þetta nánast eftir fiskatölu. Ég fullyrði það. Vísindamönnunum á Hafrannsóknastofnun gengur gott eitt til en þeir geta ekki spáð eftir fiskatölu. Ég er búinn að upplifa það svo mörgum sinnum úti á sjó, það er bara ekki framkvæmanlegt. Niðurstaðan af þessu er að eftir 32% umframveiði lagði stofnunin til 43% aukningu.

Síðan ætla ég í lokin að fara aðeins yfir hvað gerðist með ýsuna. Á tímabili veiddum við ýsu alveg niður undir 30.000 tonn eftir ráðgjöf og við fórum með ýsukvótann upp yfir 100.000 tonn. Þetta er að sjálfsögðu allt út frá gögnum Hafrannsóknastofnunar. Síðan tók ég saman og sá að á árunum 1998–2002 var heildartillaga Hafrannsóknastofnunar, ef við tökum þessi fjögur ár og leggjum þau saman, 130.000 tonn af ýsu. Niðurstaðan varð svipuð og í sambandi við ufsann, við veiddum 32% umfram veiðiráðgjöf Hafrannsóknastofnunar, þ.e. veiddum 171.000 tonn af ýsu á þessum árum í staðinn fyrir 130.000 tonn sem Hafrannsóknastofnun lagði til. Það var enn þá merkilegra að skoða niðurstöðuna og viðbrögð Hafrannsóknastofnunar eftir þennan gjörning sem ég er að lýsa hér, þann að hafa veitt 32% umfram það sem hún taldi óhætt að gera. Eftir þetta fjögurra ára tímabil lagði Hafrannsóknastofnun til að ýsukvótinn yrði aukinn um 83%. Þegar við erum búin að vera í allri ofveiðinni að mati Hafrannsóknastofnunar eru viðbrögðin þessi: Aukum ýsukvótann um 83% á milli ára.

Þess vegna segir maður að vísindin séu það ung að við verðum að skoða þessi mál algjörlega og yfirvegað ofan í kjölinn. Ég er búinn að taka margar snerrur við hina ágætu starfsmenn Hafrannsóknastofnunar og menn mega ekki líta þannig á að þegar þeir rökræða hlutina og eru ekki á sama máli tali menn eitthvað niður starf annarra. Ég hef persónulega kallað eftir staðreyndum og upplýsingum um hvað liggur að baki en þá snúast menn oft í þessa vörn, eins við lendum í hér, hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar, höfnum ofan í einhverjum skotgröfum og náum ekki að ræða saman á eðlilegum grunni.

Við getum líka skoðað togararallið lengra. Ég gæti ábyggilega rætt um þessi mál í heilan dag. Togararallið fer fram á ákveðnum dögum sem menn reyna að stíla inn á, þeir leigja sér togara, það er farið að toga og oft eru skilyrðin erfið. Ef skilyrði eru mjög slæm reyna menn að fresta rallinu en í sjálfu sér er ekki mikið tillit tekið til þess hvernig ástandið er á miðunum þegar togararallið fer fram, þ.e. hvort veður sé vont, stækkandi straumur eða minnkandi straumur sem hefur að sjálfsögðu mjög mikil áhrif á veiðarnar. Ég skoðaði til að mynda tvö röll fyrir nokkrum árum og þá kom í ljós að þegar menn toguðu fyrir suðurströndinni, gerðu togararallið þar, voru togararnir sem voru venjulega á því svæði annars staðar vegna þess að það voru mjög erfið skilyrði á svæðinu. Alla þessa hluti verðum við að taka inn í það sem við erum að gera.

Ef menn stúdera togararallið enn þá lengra getur það skipt sköpum hvort það veiðist vel fyrir norðan land eða sunnan land í rallinu sem slíku. Það getur haft áhrif á það hvernig menn meta ástand viðkomandi árganga, hvernig ástandið er á fiskinum ef það veiðist mikið fyrir norðan eða fyrir sunnan. Menn verða að skoða þetta mjög vel út frá öllum hliðum.

Eftir situr þó það sem ég legg til hér og mæli fyrir í þessu frumvarpi, að menn skipi aflaráðgefandi nefnd sem skili tillögum til Hafrannsóknastofnunar á hverjum tíma og þá hefur ráðherra gögn þeirrar nefndar til hliðsjónar. Þessi gögn eru ekki sett til höfuðs gögnum Hafrannsóknastofnunar heldur hefur hæstv. ráðherra ráðgjöfina frá Hafrannsóknastofnun þegar hann tekur ákvörðun um það aflamark sem hann vill leyfa að veiða á næsta kvótaári. Hann hefur gögnin sem liggja þar á bak við og þær forsendur sem Hafrannsóknastofnun mælir með í heildarafla og að auki hefur hann ráðgjöf frá þessari aflaráðgefandi nefnd. Þá getur hann vegið þau og metið, hann getur hugsanlega tekið tillit til einhverra hér eða þar en það er algjörlega í hendi ráðherrans að ákveða út frá upplýsingunum.

Mikilvægast í þessu er þó að hann hafi öll gögnin uppi á borðum og sjái í framhaldi af því og meti út frá þekkingu sinni hvað hann vill leggja til. Það er gríðarlega mikilvægt, virðulegi forseti, að við eyðum tortryggni milli sjómanna og Hafrannsóknastofnunar og komumst upp úr þessum hjólförum. Menn verða að geta skilað tillögum sem hæstv. ráðherra getur þá hugsanlega tekið tillit til. Hugsunin er eingöngu sú að það muni þá styrkja hæstv. ráðherra í þeirri ákvörðun sem hann tekjur hverju sinni.