138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

vestnorræn nemendaskipti milli menntastofnana á framhaldsskólastigi.

312. mál
[18:23]
Horfa

Flm. (Ólína Þorvarðardóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég flyt hér þrjár þingsályktunartillögur í einum pakka frá Vestnorræna ráðinu. Sú fyrsta er um vestnorræn nemendaskipti milli menntastofnana á framhaldsskólastigi. Flutningsmenn allra tillagnanna auk mín eru Lilja Rafney Magnúsdóttir, Atli Gíslason, Árni Johnsen, Sigurður Ingi Jóhannsson og Þráinn Bertelsson.

Fyrsta þingsályktunartillagan er svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að gera samning við landsstjórnir Færeyja og Grænlands um samstarf menntastofnana á framhaldsskólastigi í löndunum þremur með það að markmiði að koma á nemendaskiptum. Enn fremur er mælt með að stjórnvöld leggi fé í sjóð til að greiða kostnað við verkefnið.“

Þessi tillaga er sett fram, eins og kemur fram í greinargerð, á grundvelli ályktunar Vestnorræna ráðsins nr. 1/2009 sem samþykkt var á ársfundi ráðsins 27. ágúst 2009 í Rúnavík í Færeyjum. Markmið tillögunnar er að auka þekkingu Vestur-Norðurlandabúa á högum og menningu nágranna sinna og leið að því marki er að ungmenni fái tækifæri til tímabundinnar dvalar í öðrum vestnorrænum löndum og geti þar með fengið innsýn í menningu nágrannalandanna.

Tillagan miðast við framhaldsskólastig en vænta má að á því stigi sé samstarf auðveldast. Með framhaldsskólastigi er m.a. átt við menntaskóla, fjölbrautaskóla, verslunarskóla, tækniskóla og iðnnám hjá meistara.

Framhaldsskólastigið er vel þróað í öllum löndunum þremur með fjölbreyttum námsmöguleikum fyrir nemendur. Kerfunum svipar auk þess saman í löndunum þremur og þannig er yfirfærsla námsmatsins auðveldari. Aukin samvinna t.d. á háskólastigi hefði hins vegar í för með sér takmarkanir þar sem framboð á háskólanámi er mjög takmarkað í Færeyjum og á Grænlandi.

Miðað er við að fyrirkomulag nemendaskiptanna verði svipað og hjá AFS, þ.e. að skiptinemarnir búi í heimahúsum hjá fjölskyldum í dvalarlandinu. Nemendaskiptum mun fylgja kostnaður við ferðir og uppihald en kostnaður við námsstyrki og kennslu er óbreyttur. Mælt er með að löndin þrjú veiti fé til að greiða kostnað sem hlýst af verkefninu.

Tillagan vekur spurningar um tungumálahindranir en til þess að nemendur geti tileinkað sér kennslu í dvalarlandinu er mikilvægt að hún fari fram á tungumáli sem þeir skilja. Lausn á því verður að finna áður en af þessum nemendaskiptum verður.

Þá er það tillaga til þingsályktunar um tilraunaverkefni um samvinnu um nám og starfsþjálfun fyrir ungt fólk og ófaglærða á Vestur-Norðurlöndum svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að veita fjárstuðning til tilraunaverkefnis í samvinnu við landsstjórnir Færeyja og Grænlands sem stuðli að aukinni vestnorrænni samvinnu um námsframboð og starfsþjálfun fyrir ungt fólk og ófaglærða á Vestur-Norðurlöndum.“

Þessi tillaga er sett fram á grundvelli ályktunar Vestnorræna ráðsins nr. 3/2009 sem samþykkt var á ársfundi ráðsins í Rúnavík í Færeyjum og markmið hennar er að skapa hvatningu fyrir einstaklinga sem ekki eru langskólagengnir til að auka þekkingu sína og kunnáttu sem og lífsgæði og atvinnumöguleika með því að fjölga tækifærum til mennta á Vestur-Norðurlöndum.

Samhliða alþjóðlegu fjármálakreppunni og efnahagssamdrætti hefur atvinnuleysi aukist í öllum vestnorrænu löndunum undanfarna mánuði og reynsla Vestur-Norðurlandanna sem og annarra landa sýnir að atvinnuleysi bitnar einna helst á einstaklingum sem hafa takmarkaða menntun eða starfsþjálfun. Samantekt Vinnumálastofnunar á Íslandi sýnir að fólk sem hefur ekki aðra menntun en grunnskólapróf hefur orðið harðast úti í uppsögnum liðinna mánaða auk þess sem ungu fólki á atvinnuleysisskrá hefur fjölgað hratt og fleiri karlar en konur hafa misst vinnu. Svipaða sögu er að segja frá Grænlandi en af þeim sem voru atvinnulausir árið 2008 í þéttbýlisstöðum þar voru 81,4% ófaglærðir og meiri hlutinn karlmenn samkvæmt tölfræði hagstofu Grænlands svo að dæmi sé tekið.

Vestur-Norðurlöndin eiga það sameiginlegt að brottfall úr framhaldsskólum er talið vera vandamál. Til að mynda kom fram í skýrslu norrænu ráðherranefndarinnar árið 2008 að brottfall á meðal framhaldsskólanema á Íslandi er um 40%. Það sem vekur sérstaka athygli, a.m.k. á Íslandi og Grænlandi, er að brottfall er hvað mest úr faglegu iðnnámi. Rannsóknir sýna þar fyrir utan að þeir sem eru með minnsta formlega menntun sækja sér síður símenntun en þeir sem eru með meiri menntun.

Þemaráðstefna Vestnorræna ráðsins um námsframboð fyrir fólk sem ekki er langskólagengið eða faglært var haldin á Grænlandi í ágúst 2009. Meginmarkmið ráðstefnunnar var að kortleggja námsframboð á Vestur-Norðurlöndum fyrir þennan hóp fólks og kanna með hvaða hætti Vestur-Norðurlönd gætu aukið samstarf sín á milli annars vegar með námsframboði og hins vegar með því að skapa hvatningu fyrir fólk til að bæta við kunnáttu sína og þar með auka lífsgæði sín og atvinnumöguleika.

Í ljósi reynslunnar á Íslandi og markmiða þemaráðstefnunnar var tillaga um tilraunaverkefni um aukna samvinnu milli Vestur-Norðurlanda lögð fram en hugmyndin er að ef vel tekst til sé hægt að undirbyggja nánara samstarf á þessu sviði sem verði gagnkvæmt samstarf allra Vestur-Norðurlanda.

Tilraunaverkefnið felur í sér að bjóða upp á ungmenna- og kennaraskipti milli Vestur-Norðurlanda og sem fyrsta skref væri hægt að bjóða fimm til sjö ungmennum eða ófaglærðum frá Grænlandi og Færeyjum ásamt nokkrum kennurum til verknáms í Menntaskólanum á Ísafirði í eina önn/einn vetur með búsetu á heimavist og fæði í mötuneyti. Fræðslumiðstöð Vestfjarða mundi semja kennslu- og starfsmenntaáætlun og halda utan um verkefnið og jafnvel sjá um eitthvert bóklegt nám. Menntaskólinn á Ísafirði sæi um verknámshlutann og næsta skref yrði að vinna að því að bjóða upp á alhliða samvinnu á milli nemenda og kennara frá öllum vestnorrænu löndunum. Þetta hefur verið rætt við forsvarsmenn þessara menntastofnana og hafa þeir tekið hugmyndinni vel og lýst sig reiðubúna til þess að vinna henni framgang. Í framhaldinu yrði sótt um nemendaskiptastyrki í norræna sjóði og meðgjöf frá stjórnvöldum sem næmi framlagi íslenska ríkisins til nemendaígilda við íslenska framhaldsskóla þann tíma sem nemendurnir væru við nám á Ísafirði.

Þriðja þingsályktunartillagan er um vestnorrænt tilraunaverkefni á sviði fjarkennslu á háskólastigi, svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að styðja við tilraunaverkefni vestnorrænna háskóla á sviði fjarkennslu. Markmiðið með verkefninu verði að leggja grunn að formlegu framtíðarsamstarfi Vestur-Norðurlanda á sviði fjarkennslu á háskólastigi.“

Tillaga þessi er sett fram á grundvelli ályktunar Vestnorræna ráðsins nr. 4/2009 sem samþykkt var á ársfundi ráðsins í Rúnavík í Færeyjum í ágúst 2009.

Tillagan á rætur að rekja til þemaráðstefnu Vestnorræna ráðsins sem haldin var á Suður-Grænlandi 4.–7. ágúst 2009. Í óformlegum umræðum, sem fóru fram á ráðstefnunni, vaknaði áhugi á því að kanna hvort og þá með hvaða hætti Háskóli Íslands gæti boðið upp á fjarnámskennslu á dönsku eða ensku við háskólana á Grænlandi og í Færeyjum. Í kjölfarið samþykkti ársfundur Vestnorræna ráðsins að frumkvæði landsdeildar Grænlands ályktun þar sem gerð er tillaga að tilraunaverkefni um fjarkennslu á sviði kennaramenntunar, sem síðan muni liggja til grundvallar formlegu framtíðarsamstarfi Vestur-Norðurlandanna á sviði fjarkennslu.

Á Íslandi hefur í hartnær 15 ár verið boðið upp á fjarkennslu fyrir kennaranema sem vegna búsetu og vinnu við kennslu í afskekktum byggðarlögum hafa ekki haft tök á að sækja tíma í hefðbundnu námi. Í sumum námskeiðum í Háskóla Íslands er ekki gerð krafa um tímasókn en í öðrum er gerð krafa um að mæta tvisvar til þrisvar sinnum í tíma meðan á námskeiði stendur. Einnig býður Háskólinn á Akureyri upp á fjarnám á fleiri en einu sviði sem tengist kennaramenntun. Hugsanlega væri hægt að bjóða háskólanemum á Grænlandi og í Færeyjum að taka fjarkennslunámskeið sem háskólar á Íslandi bjóða upp á.

Forsendur fyrir því að útvíkka fjarkennslu til skólanna á Grænlandi og í Færeyjum eru fyrir hendi að mati Háskóla Íslands. Í fyrsta lagi er fjöldi kennara við íslenska háskóla með sérhæfingu í fjarkennslu. Í öðru lagi eru tæknilegar forsendur fyrir hendi. Í þriðja lagi gæti slíkt tilraunaverkefni fallið inn í rannsóknarverkefni um fjarkennslu.

Hvað Grænlandi viðvíkur er lagt til að haft sé samráð við menntastofnanir á sviði kennaranáms eins og Ilinniarfissuaq, Perorsaanermik Ilinniarfik og Kennarastofnunina (Institut for Uddannelsesvidenskab) í Grænlandi um samvinnu á sviði fjarkennslu. Tilraunaverkefnið mundi meðal annars ganga út á það að bjóða upp á tiltekin fjarkennslunámskeið frá Íslandi í bæklingi sem Kennarastofnunin sendir í lok árs til nemenda og veitir yfirlit yfir öll námskeið sem eru í boði hverju sinni.

Forsenda þess að hægt verði að ráðast í verkefnið er að það hafi ekki mikinn kostnað í för með sér fyrir íslenskt menntakerfi heldur verði hægt að nýta kennslu, tækjabúnað og skipulag sem fyrir hendi er. Lagt er til að mennta- og menningarmálaráðuneytið geri kostnaðaráætlun fyrir tilraunaverkefnið í samráði við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri. Jafnframt er lagt til að ríkisstjórnin fjármagni tilraunaverkefnið ásamt landsstjórnum Færeyja og Grænlands að svo miklu leyti sem löndin taka þátt í verkefninu.

Við óskum eftir því, flutningsmenn, að þessum þremur þingsályktunartillögum verði vísað til utanríkismálanefndar.