138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

vestnorræn nemendaskipti milli menntastofnana á framhaldsskólastigi.

312. mál
[18:35]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér þrjár þingsályktunartillögur sem snerta vestnorrænt samstarf. Ég ætla að byrja að ræða þingsályktunartillögu um nemendaskipti menntastofnana á framhaldsskólastigi þar sem Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að gera samning við landsstjórnir Færeyja og Grænlands um samstarf menntastofnana á framhaldsskólastigi í löndunum þremur og markmiðið er að koma á nemendaskiptum. Lagt er til að stjórnvöld leggi til fé í sjóð til að greiða kostnað við verkefnið.

Eins og fram hefur komið er tillaga þessi lögð fram á grundvelli ályktunar Vestnorræna ráðsins sem samþykkt var á ársfundi ráðsins 27. ágúst 2009 í Rúnavík í Færeyjum. Þetta er mjög áhugavert og spennandi verkefni sem kæmi til með að styrkja tengsl þessara landa, efla sýn á sameiginlega hagsmuni landanna og auka innsýn nemenda í menningu hvers lands.

Í tillögunni er gert ráð fyrir að skiptinemarnir búi í heimahúsum hjá fjölskyldum í viðkomandi dvalarlandi og er með því verið að treysta enn frekar að góð kynni myndist og að góður árangur verði af nemendaskiptunum. Ég hef fulla trú á að samstarf þessara landa á sviði menntunar og menningar eigi eftir að verða til framfara og muni halda áfram að þróast á enn fleiri sviðum íbúum þessara landa til hagsbóta. Ég vona að þingsályktunartillaga þessi hljóti hér góðan hljómgrunn.

Við ræðum hér einnig þingsályktunartillögu um tilraunaverkefni um samvinnu um nám og starfsþjálfun fyrir ungt fólk og ófaglærða á Vestur-Norðurlöndum þar sem Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að veita fjárstuðning til tilraunaverkefnis í samvinnu við landsstjórnir Færeyja og Grænlands sem stuðla eiga að aukinni vestnorrænni samvinnu um námsframboð og starfsþjálfun fyrir ungt fólk og ófaglærða í þessum löndum.

Tillaga þessi er sett fram á grundvelli ályktunar sem samþykkt var á ársfundi Vestnorræna ráðsins 27. ágúst 2009 í Rúnavík í Færeyjum. Atvinnuleysi hefur aukist mikið í vestnorrænu löndunum í kjölfar fjármálakreppunnar og þess efnahagssamdráttar sem af henni hefur leitt. Þeir sem hafa orðið einna harðast úti vegna atvinnumissis er ungt fólk með takmarkaða menntun og litla starfsþjálfun og það er vissulega mikið áhyggjuefni ef þetta unga fólk festist í atvinnuleysi og nær ekki að brjótast út úr þeim vítahring sem lítil menntun og samdráttur á vinnumarkaði skapar því. Því er það brýnt að stjórnvöld þessara landa grípi inn í þessa hættulegu þróun og bregðist fljótt við og þessi tillaga gæti verið liður í því verkefni.

Á þemaráðstefnu Vestnorræna ráðsins sem haldin var á Grænlandi 4.–7. ágúst 2009 var rætt um námsframboð fyrir ungt fólk sem hvorki er faglært né hefur langa skólagöngu að baki og þar var reynt að kortleggja námsframboð á Vestur-Norðurlöndum fyrir þennan hóp fólks og hvaða leiðir væru færar til að auka samstarf landanna og bjóða upp á nám við hæfi sem væri til þess fallið að hvetja fólk til að auka þekkingu sína og færni á vinnumarkaði og þar með að styrkja viðkomandi í atvinnuleit.

Ráðstefnan leiddi í ljós að á Íslandi er gott námsframboð fyrir þá sem hafa litla menntun að baki og þar hefur verkalýðshreyfingin ásamt atvinnulífinu, sveitarfélögum og fleiri aðilum byggt upp fræðslu- og símenntunarstöðvar víða um land.

Í ljósi góðrar reynslu á Íslandi af framboði á fjölbreyttu námi fyrir þennan hóp fólks sem gagnast hefur því vel og hefur styrkt það á vinnumarkaði er hér lagt upp með tilraunaverkefni um nánara samstarf þessara landa sem byggist á að boðið verði upp á ungmenna- og kennaraskipti milli Vestur-Norðurlandanna. Fyrsta skref væri að bjóða nokkrum ungmennum eða ófaglærðum frá Grænlandi og Færeyjum ásamt kennurum til verknáms í Menntaskólanum á Ísafirði í samstarfi við Fræðslumiðstöð Vestfjarða. Þetta er mjög áhugavert og spennandi verkefni sem yrði svo þróað lengra með alhliða samvinnu í kennara- og nemendaskiptum með stuðningi stjórnvalda þessara landa. Ég mæli því eindregið með að þessi tillaga fái einnig gott brautargengi.

Þriðja tillagan fjallar um fjarnám á háskólastigi og hún er ekki síður mjög áhugaverð. Ég treysti því að þessar tillögur allar, sem eru mjög gott innlegg í samstarf þessara landa, fái gott brautargengi hér.