138. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2010.

orð ráðherra um sjávarútvegsfyrirtæki.

[13:39]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Sjávarútvegur á Íslandi hefur í gegnum tíðina staðið undir öllu því sem við höfum verið að gera eða stórum hluta þess og hann verið okkar langmikilvægasta atvinnugrein. Á því hafa ekki orðið stórar breytingar. Sjávarútvegur skilar okkur í dag langmestum tekjum og framlag hans til vergrar landsframleiðslu er miklu hærra en nokkurrar annarrar atvinnugreinar. Það er því ákaflega mikilvægt að þegar fjallað er um málefni sjávarútvegs sé það gert í fullri alvöru og af heiðarleika gagnvart þessari grein og gagnvart því góða fólki úti um allt land sem hefur byggt upp þennan mikilvæga iðnað á undanförnum árum. Það hefur átt sér stað gríðarlega mikil hagræðing í þessari grein á undanförnum árum. Miklar fjárfestingar sem hafa skilað sér í aukinni hagkvæmni greinarinnar, minnkandi fiskiskipaflota, færri höndum til að vinna afla og vinna verðmæti úr sjó og hefur það snaraukið alla verðmætasköpun til hags fyrir þjóðina í þessari mikilvægu grein.

Það vakti því undrun mína að í viðtali í Fréttablaðinu um helgina viðhafði hæstv. félagsmálaráðherra mjög niðrandi ummæli um þessa atvinnugrein þegar hann sagði m.a., með leyfi forseta:

„Þessir menn hafa hegðað sér eins og spilafífl og apakettir út um allar koppagrundir og veðsett fyrirtækin upp í rjáfur til að fjármagna óskylt brask.“

Ég held að ég verði að biðja hæstv. ráðherra að tala skýrar hér og taka til þau fyrirtæki og þá einstaklinga sem hann á við með þessum ummælum sínum. Er hann að tala um greinina í heild sinni (Forseti hringir.) út um allt land eða er hann að tala um einhverja færri aðila? Þá verður hann að nefna þá til sögunnar.