138. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2010.

búferlaflutningar af landinu.

[13:46]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Hagstofan flytur okkur fréttir af því að samkvæmt skráningum hennar hafi 4.835 fleiri flutt frá landinu árið 2009 en til landsins og samkvæmt fréttum hafa aldrei áður jafnmargir flutt frá landinu á einu ári. Næstflestir brottfluttir munu hafa verið árið 1887. Af þessu hef ég miklar áhyggjur sem og væntanlega flestallir sem búa hér á landi enda er ungt fólk áberandi í þessum hópi, en samkvæmt tölum Hagstofunnar eru flestir brottfluttra á aldrinum 25–29 ára. Það kemur fram á vefmiðlinum Pressunni í viðtali við Ólaf Ísleifsson, sem er lektor í hagfræði við Háskólann í Reykjavík, að hann lýsi þungum áhyggjum af þessu og hann segir þar, með leyfi forseta: „Flóttinn sýnir að fólk sættir sig ekki við þau lífskjör og efnahagsskilyrði sem hér eru í boði. Þetta kallast að greiða atkvæði með fótunum.“

Ég hef þungar áhyggjur af þessu og mig langar að beina þeirri fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra: Til hvaða aðgerða ætlar ríkisstjórnin að grípa til að sporna gegn þessum landflótta og er það álit hæstv. forsætisráðherra að hér sé brostinn á landflótti? Nú er það svo að áður hefur verið rætt um þetta mál í þingsal og lofað ýmsum aðgerðum, talað hefur verið um skjaldborg fyrir heimilin. Samkvæmt könnun ASÍ telja 90% heimila á Íslandi sig ekki kannast við þá skjaldborg og ég spyr: Er þessi skjaldborg væntanleg? Jafnframt spyr ég: Eru einhverjar líkur til þess að ríkisstjórnin fari að vinna að því að skapa þær aðstæður að hér verði til fleiri störf þannig að við náum að stöðva þennan landflótta?