138. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2010.

búferlaflutningar af landinu.

[13:51]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég er hjartanlega sammála síðustu orðum hv. þingmanns að það er atvinnan sem skiptir máli, enda hefur ríkisstjórnin, ef horft er af sanngirni á málið, verið að vinna í því. Hér var nefndur sjávarútvegurinn og fyrningarleiðin og það sem menn eru að skoða í því sambandi er að reyna að ná sátt í því máli. Ég geri auðvitað kröfu til þess að hv. þingmaður, sem spyr um atvinnu og atvinnuuppbyggingu, hafi kynnt sér hvað var á borðum ríkisstjórnarinnar fyrir helgi þar sem kynnt voru mjög fjölbreytt störf sem við erum að vinna að að komi til framkvæmda. Þar kom m.a. fram að í marsmánuði var sett fram áætlun um 4.000 störf og þegar eru 2.350 af þeim komin til framkvæmda. Kynnt voru ýmis störf við uppbyggingu í ferðamannaiðnaði sem á að skila á verulegum fjölda starfa og 500–700 millj. inn í hagkerfið. Þar voru kynntar undirbúningsframkvæmdir sem við erum að vinna að við Búðarhálsvirkjun, stofnun fjárfestingarsjóða til að auðvelda fjármögnun (Forseti hringir.) nýsköpunar- og sprotafyrirtækja o.s.frv. o.s.frv. Ég hvet hv. þingmann til að kynna sér þetta, þannig að hún geti rætt þetta mál (Forseti hringir.) út frá þeim staðreyndum sem ríkisstjórnin er að vinna að.