138. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2010.

endurkoma fyrri stjórnenda í viðskiptalífið.

[13:55]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa tímabæru fyrirspurn. Því er til að svara að fyrst er kannski rétt að halda því til haga að mjög mikilvægt er að ferlið sem bankarnir eru nú í miðju skuli loks vera hafið og raunar var það mjög til vansa hversu lengi það dróst að bankarnir brettu upp ermarnar og fóru að hjálpa viðskiptavinum sínum við að leysa úr sínum erfiðu málum. En annar flötur á því máli er vitaskuld að sú vinna verður aldrei unnin svo öllum líki. Það er væntanlega kjarni ástæðunnar fyrir því að þingmaðurinn bar upp þessa fyrirspurn.

Við verðum að hafa í heiðri nokkur sjónarmið og vitaskuld kannski fyrst og fremst reglur réttarríkisins, m.a. það að allir skuli teljast saklausir uns sekt er sönnuð og vitaskuld einnig það að það er dómskerfisins fyrst og fremst að refsa mönnum hafi þeir brotið lög en kannski ekki bankakerfisins, enda held ég að við mundum aldrei vilja framselja það vald til þeirra sem stjórna bönkunum, hvorki nú né fyrr. En eftir sem áður stendur að bankarnir eru í mörgum tilfellum að vinna úr málum manna sem eru kannski grunaðir um að hafa brotið lög en það hefur ekki sannast. En jafnvel þótt þeir séu ekki grunaðir um að hafa brotið lög hafa þeir gengið freklega fram af þjóðinni með hegðun sinni á undanförnum árum. Þess vegna er mjög súrt fyrir marga og þar á meðal þann sem hér stendur að sjá að þeir geta í einhverjum tilfellum endurreist sín viðskiptaveldi í ljósi þess að þeir hafi ekki brotið nein lög.

Ég tel að við verðum að reyna að sjá til þess að regluverkið sé eins skýrt og hægt er til að hægt sé að taka á því ef þeir sem hafa brotið lög ætla að reyna að viðhalda viðskiptaveldum sínum en við munum ekki fara út fyrir ramma réttarríkisins og ekki (Forseti hringir.) framselja til bankakerfisins réttinn til að refsa mönnum fyrir að hafa brotið lög.