138. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2010.

endurkoma fyrri stjórnenda í viðskiptalífið.

[13:57]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Ég þakka ráðherra svörin en ég held að hann hafi einmitt tæpt á því hversu flókið þetta úrlausnarefni er. Ímyndum okkur t.d. hverju við ætlum að svara þegar kemur að því að lífeyrissjóðir landsmanna verða komnir í það hlutverk sem einkabankarnir eru í í dag. Hvernig hyggjast lífeyrissjóðirnir taka á málefnum fyrirtækja sem þeir hafa fjárfest í og standa frammi fyrir gjaldþroti annars vegar eða að heimila aðkomu fyrrum eigenda hins vegar? Hvað á lífeyrissjóður að gera þegar endurheimtur hans geta hugsanlega verið betri ef hann heimilar „útrásarvíkingi“ að koma inn með nýtt eigið fé? Hverju munu lífeyrisþegar svara þegar þeir standa frammi fyrir tveim valkostum, annars vegar að útrásarvíkingur geti endurfjármagnað fyrirtæki sitt eða lífeyrissjóðurinn tapi milljörðum króna? Mitt mat er að til mikils sé að vinna að okkur takist að búa til heilbrigt viðskiptalíf sem almenningur treystir. Það getur verið að slíkt leiði til kostnaðar fyrir okkur til skemmri tíma en til lengri tíma sé það til hagsbóta fyrir okkur öll að heiðarleiki og gagnsæi ríki í íslensku viðskiptalífi, að hér hafi átt sér stað siðbót og að siðleysi undanfarinna ára verði ekki liðið. Það er að mínu mati verkefni Alþingis að tryggja að svo sé og við það verkefni er mikilvægt að alþingismenn allir standi saman.