138. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2010.

endurkoma fyrri stjórnenda í viðskiptalífið.

[13:58]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Frú forseti. Ég get tekið undir flest ef ekki allt sem fram kom í máli hv. þingmanns. En ég vil bæta því við að við skulum hafa í huga að það er fyllilega málefnalegt hjá fjárfestum, hvort sem það eru lífeyrissjóðir eða einhverjir aðrir, að vilja ekki eiga í viðskiptum við eða eiga hlut í fyrirtæki með aðilum sem hafa gengið fram af þjóðinni eða með öðrum hætti sýnt að þeir eru ekki trausts verðir. Ég geri enga athugasemd við það að lífeyrissjóðir, sem eru auðvitað vörslumenn almannafjár, viðhafi þau sjónarmið og fari eftir þeim í fjárfestingum sínum í framtíðinni. Það er heldur ekkert við því að segja og raunar bara fyllilega eðlilegt að almenningur neiti í einhverjum tilfellum að eiga í viðskiptum við menn sem hafa með sama hætti gengið fram af þjóðinni og kannski kemur þá af sjálfu sér að þeim tekst ekki að endurreisa viðskiptaveldi sín því að viðskiptaveldi er lítils virði ef enginn vill við það skipta.