138. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[14:08]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Við framsóknarmenn erum jafnframt aðilar að þessu minnihlutaáliti og leggjum til að þessu máli verði vísað frá. Ástæðan er sú að um stjórn fiskveiða ríkir ágreiningur í samfélaginu, hann er búinn að vera í langan tíma og er djúpstæður. Sú leið sem ríkisstjórnin ákvað að fara, að setja málið í sáttafarveg allra aðila, er jákvæð. Við höfum tekið undir þá vinnu, við erum aðilar að slíku samráði og höfum talið eðlilegt að á meðan málið er í þeim farvegi væri ekki hlaupið með mál hér inn í krafti lítils meiri hluta og reynt að valta yfir hagsmuni margra og stóran hluta þingmanna.

Ríkisstjórnin hefur valið þá leið að nota lítinn meiri hluta til að gjörbreyta samfélaginu í stað þess að leita breiðrar sáttar, að reyna að sækja 70–80% samfélagsins á bak við allar stórar breytingar og ekki síst mikilvægar atvinnugreinar eins og þessa. (Forseti hringir.) Leiðin til þess er að vísa þessu frumvarpi frá og taka málið upp í samráðsnefndinni.