138. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[14:15]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það er þekkt að einn meginásteytingarsteinninn varðandi fiskveiðistjórnarkerfið er spurningin um framsalið og veiðiskylduna. Það er sannarlega erfitt mál úrlausnar og hefði verið eðlilegt að vísa því máli inn í endurskoðunarnefnd sem nú er að störfum. Fyrir liggur að sjómannasamtökin og Landssamband íslenskra útvegsmanna vilja auka veiðiskylduna og gera það með tilteknum hætti. Aðilar innan Landssambands smábátaeigenda hafa varað við því að fara mjög bratt í að auka veiðiskyldu og draga þannig úr framsalinu vegna þess að það hefur neikvæð áhrif á stöðu þeirra sem eru veikari og minni í útgerðinni.

Tillaga okkar í minni hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar er sú að fara þá leið sem sjómannasamtökin og LÍÚ lögðu til en gera það þó þannig að þessi aukna veiðiskylda verði lögleidd á þremur árum til að draga úr því höggi sem minni útgerðirnar verða fyrir. Mér finnst ótrúlegt að hugsa til þess að meiri hluti sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar skyldi ekki taka undir þetta og að svo virðist sem (Forseti hringir.) meiri hluti þingsins ætli að hafna þeirri leið sem bæði sjómannasamtökin og Landssamband íslenskra útvegsmanna hafa talað fyrir og því að fara mildari leið eins og minni útgerðirnar hafa hvatt til.