138. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[14:24]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Eftir að þetta mál hafði komið fram, þetta umdeilda frumvarp sem mjög hefur verið rætt, hugsaði meiri hluti sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar sig mjög lengi um til þess að komast að niðurstöðu um hverju væri skynsamlegast að breyta í þessu frumvarpi. Ýmsar ábendingar höfðu komið fram í þessum efnum en á engar þeirra var hlustað. Hins vegar tók meiri hluti sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar upp á því öllum að óvörum að hverfa frá þeirri meintu byggðaáherslu sem hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðaðarráðherra talaði fyrir í upphafi málsins og meiri hluti sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar ákvað þess vegna að henda út ákvæðinu um að fjármunir þeir sem fengjust við uppboð á skötuselskvóta rynnu til byggðaáætlunar og þess í stað er hér lagt til að það sé gert með öðrum hætti.

Þetta sýnir, þótt lítið sé, (Forseti hringir.) áherslur ríkisstjórnarinnar í byggðamálum og hvernig hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra var ofurliði borinn í (Forseti hringir.) þessu máli.