138. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[14:26]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Varðandi áform meiri hlutans í þessu skötuselsmáli langar mig að vitna aðeins í meirihlutaálitið, með leyfi forseta:

„Það er mat meiri hlutans að mikilvægt sé að ganga með ábyrgum hætti um nytjastofna sjávar og hlúa að þeirri ímynd sem við höfum á alþjóðavettvangi sem ábyrg fiskveiðiþjóð.“

Því er kostulegt að í þessu skötuselsmáli er áætlað að fara um 80% umfram ráðleggingar Hafrannsóknastofnunar. Við höfum talað fyrir því að það væri kannski gáfulegt við slíkar aðstæður að auka þorskkvóta lítillega en á það hefur ekki verið hlustað vegna þess að menn vilja sýna fram á að þeir séu ábyrg fiskveiðiþjóð og hreyfa ekki við 20% reglu, en hér á að fara 80% fram úr ráðleggingum Hafrannsóknastofnunar til þess eins að búa til óeirðir og deilur innan sjávarútvegsins í stað þess að vísa þessu máli eins og öllum öðrum (Forseti hringir.) inn í sáttanefndina og taka málið þaðan þegar um 70% þjóðarinnar væru orðin sammála um eina mikilvægustu atvinnugrein þjóðarinnar.