138. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[14:28]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Menn hafa deilt um það hvort það sé skynsamlegt eða eðlilegt að menn geti keypt og selt frá sér kvóta. Ég held að flestir séu sammála um að einn helsti kostur íslenska fiskveiðistjórnarkerfisins sé hinn svokallaði hlutdeildarkvóti. Menn geta vitað að ef aflaheimildir eru skornar niður munu þeir sem skorið var niður hjá njóta þess þegar ákveðið er að auka aftur aflaheimildir. Þetta er lykilatriði. Með því að við samþykkjum það ákvæði sem hér er um að ræða er skorið á þessi mikilvægu tengsl og það er mjög alvarlegt mál.

Í öðru lagi tek ég undir með hv. þm. Pétri H. Blöndal, það er furðulegt og óskiljanlegt að sjávarútvegsráðherra frá Vinstri grænum skuli leggja það til að Alþingi veiti honum heimild til að fara 80% fram úr fiskveiðiráðgjöf Hafrannsóknastofnunar. Það verður áhugavert, frú forseti, að fylgjast með því hér á eftir hvernig hv. þingmenn Vinstri grænna greiða atkvæði í þessu máli.