138. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2010.

staða efnahagsmála.

[14:42]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir að beiðni mín um umræðu um stöðu efnahagsmála hefur nú verið tekin fyrir. Ég vil lýsa þeirri skoðun minni að ekkert eitt mál skiptir þingið meira máli þessi missirin en staða efnahagsmála, hvernig við vinnum á efnahagsvandanum.

Nú fagnar ríkisstjórnin eins árs afmæli sínu í febrúarmánuði. Þegar hún tók við voru höfð uppi fyrirheit um uppbyggingu og endurreisn, skjaldborg fyrir heimilin, velferðarbrú vinstri flokkanna í landinu. Allir vita að ríkisstjórnin tók við mjög erfiðu búi og fyrir kosningarnar sl. vor var öllum landsmönnum ljóst að það var ekki val um neina auðvelda kosti til að glíma við aðsteðjandi vandamál. En nú á eins árs afmæli ríkisstjórnarinnar hljótum við að spyrja um árangur og ef árangur er ekki kominn í hús eigum við a.m.k. að gera kröfu til þess að það sé einhver von, að við séum með vísbendingar um að menn séu á réttri leið. Ég tel að ríkisstjórnin hafi alls ekki náð árangri og hún hafi heldur ekki gefið landsmönnum neina von eða væntingar um að birta fari til í efnahagsmálum þjóðarinnar.

Við getum tekið mörg dæmi. Vextir eru allt of háir, það eru 9,5% vextir í dag hjá þjóð sem er með harkalegan samdrátt í hagkerfinu. Hér er engin þensla. Hér er engin eftirspurn að viti í hagkerfinu. Við þurfum að skapa hana að nýju, örva fjárfestingar. Vextir eru allt of háir, miklu hærri en annars staðar, meira að segja hjá þeim þjóðum sem ekki glíma við jafnmikinn samdrátt og við gerum. Við erum enn með stórskaðleg gjaldeyrishöft í gildi og engar vonir um að þeim verði aflétt á næstu missirum, engar áætlanir sem eru trúverðugar um að stjórninni muni takast að aflétta þeim á næstunni. Skattar hafa verið hækkaðir í tíð þessarar ríkisstjórnar meira en dæmi eru um í seinni tíma hagsögu okkar. Í stöðugleikasáttmálanum var svo sem gert ráð fyrir skattahækkunum. En ríkisstjórnin fór langt fram úr því sem samið hafði verið um við aðila vinnumarkaðarins, um hlut skattahækkana í því að jafna fjárlagahallann á næstu árum, um það bil 18 milljarða fram úr því sem gert hafði verið ráð fyrir í stöðugleikasáttmálanum. Þegar fjármálaráðherrann mætti á skattaráðstefnu fyrir skemmstu lét hann þessi orð falla, með leyfi forseta: „You ain't seen nothing yet.“ Það voru skilaboðin í skattamálum frá ríkisstjórninni.

Við höfum áhyggjur af ríkisfjármálunum í stjórnarandstöðunni. Við lýstum þeim við gerð fjárlaganna á síðasta ári og það er ástæða til að hafa miklar áhyggjur af því að þær tekjur sem menn hafa reiknað sér á yfirstandandi ári muni ekki skila sér. Síðan sýnast okkur aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að fresta erfiðum ákvörðunum muni á endanum leiða til þess að það verði ekki sú hagræðing í ríkisrekstrinum sem nauðsynleg er. Og einmitt vegna þess sem ég nefndi áðan, að stjórnin hefur lagt meira á skattahækkunarhliðina og minna á aðhaldshliðina í ríkisfjármálum sínum, bíður okkur alveg hrikalegur niðurskurður í ríkisfjármálunum á þessu ári og því næsta sem ríkisstjórnin hefur ekki svarað hvernig eigi að útfæra. Það eru kringum 14 þúsund Íslendingar atvinnulausir, það ríkir mikil tortryggni um starfsemi bankanna. Málefni undirstöðuatvinnugreina, svo sem iðnaðarins í landinu og sjávarútvegsins, eru í miklu uppnámi. Við vorum rétt í þessu að senda til 3. umr. afar umdeilt mál sem er til þess fallið að ala á óánægju og ósætti um undirstöðuatvinnugreinina og svo birtast okkur fréttir í blöðum í dag um að landflóttinn sé hafinn. Um þetta var rætt fyrr í dag og forsætisráðherra gerir lítið úr því en það má ekki gera lítið úr því þegar ungt fólk í stórum hópum flytur til annarra landa að sækja sér tækifæri. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Það má ekki gera lítið úr þeirri alvarlegu stöðu.

Eitt helsta verkefni okkar næstu missirin er að skapa hagvöxt. 1% hagvöxtur getur skapað um 800 störf. Á hverju ári koma nýir aðilar inn á vinnumarkaðinn, um það bil 2.000–2.500 nýir einstaklingar á hverju ári. 1% hagvöxtur leysir einungis 800 af þessum störfum. Áætlanir ríkisstjórnarinnar eru um að vera að meðaltali með um 2% hagvöxt. Ekki einu sinni þeir sem koma nýir inn á vinnumarkaðinn finna störf og þá erum við ekki farin að glíma við þá 14.000 sem eru atvinnulausir í dag. Það þarf miklu metnaðarfyllri áform um að hrinda hagvexti af stað að nýju á Íslandi en ríkisstjórnin býður upp á. Það er forsenda þess að fólk fari að trúa því að við náum að vinda ofan af þessu vandamáli og sækja fram. Það á ekki að horfa til ársins 2020 eins og ríkisstjórnin gerir, það væri nær að horfa til ársins 2015, eins og Samtök atvinnulífsins gera í nýútkominni aðgerðaáætlun sinni um atvinnu fyrir alla þar sem færð eru rök fyrir því að setji menn af stað metnaðarfull áform um að koma alvöruhagvexti af stað með nýrri fjárfestingu, með því að skapa störf og fara í verðmætaaukningu í landinu, sé hægt að vinna að þessum vanda miklu hraðar en ríkisstjórnin treystir sér að leggja drög að. Báðir þessir aðilar, Samtök atvinnulífsins og ASÍ, sem hafa verið aðilar að stöðugleikasáttmálanum, eru farnir að tala opinberlega fyrir því að ríkisstjórnin líti á þetta sem einhvers konar kyrrstöðusáttmála. Auðvitað var stöðugleikasáttmálinn aðgerðaplan um varnaráætlanir og sókn fram á við. En ríkisstjórnin hefur í engu leitað í stöðugleikasáttmálann til að grundvalla nýjar ákvarðanir. Báðir þessir aðilar líta þannig á að stöðugleikasáttmálinn sé í fullkomnu uppnámi og tefla nú fram aðgerðaáætlunum, ASÍ krefst þess að ríkisstjórnin ráðist í 26 aðgerðir og af hálfu Samtaka atvinnulífsins er nú kominn út bæklingur um atvinnu fyrir alla þar sem dregið er fram hversu mikið skortir á að ríkisstjórnin blási þjóðinni kjark og von í brjóst um að hér geti farið að birta til innan nokkurra missira.

Það er gott og blessað þegar iðnaðarráðherra okkar lýsir því að okkar bíði mörg vannýtt tækifæri í orkufrekum iðnaði og það sé mikilvægt að nýta þau til að tapa ekki niður þekkingu sem við höfum byggt undanfarin ár. En það er auðvitað holur hljómur í slíkum málflutningi þegar við erum með umhverfisráðherra sem bregður fæti fyrir slík tækifæri. Ákvörðun um að staðsetja ekki aðalskipulag fyrir hreppana fyrir austan, Flóahrepp og Skeiða- og Gnúpverjahrepp, er ákvörðun um að nýta ekki tækifæri sem Landsvirkjun á í pípunum til að koma hagvexti af stað. Þar er slegið á frest inn í langa framtíð notkun á frábærum tækifærum sem geta verið grundvöllur fyrir hagvexti. Sama gildir auðvitað fyrir ákvarðanir frá fjármálaráðherra sem kynnir til sögunnar, á sama tíma og við erum að reyna að koma hagvextinum af stað, nýja skatta á gjaldeyrisskapandi atvinnugreinar, á þær greinar sem við getum hvað helst treyst á til að koma hagvextinum aftur í gang.

Við hljótum að krefjast þess á þinginu (Forseti hringir.) að nú fari efnahagsumræðan af stað af miklu meiri krafti en verið hefur undanfarna mánuði þar sem önnur mál hafa skyggt á það sem mikilvægast (Forseti hringir.) er. Nú fer atvinnuleysisskrímslið að rísa upp úr sjó og stara í augu manna á þinginu. (Forseti hringir.) Við verðum að fara að grípa til aðgerða fyrir fólkið í landinu.