138. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2010.

staða efnahagsmála.

[14:50]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarna Benediktssyni fyrir að taka upp þetta mál, stöðu efnahagsmála, sem ég tek undir með honum að er mjög mikilvægt og eitt af mikilvægustu verkefnunum fram undan að taka á efnahags- og atvinnumálunum.

Efnahagsáætlun ríkisstjórnarinnar er skýr. Aðalmarkmiðin eru þrjú, í fyrsta lagi að tryggja stöðugleika krónunnar, í öðru lagi að endurreisa fjármálakerfið og í þriðja lagi að tryggja sjálfbærni í opinberum fjármálum á næstu missirum. Öll þessi verkefni eru auðvitað vandasöm og erfið.

Ef ég byrja á stöðugleika krónunnar hefur eins og kunnugt er gengi krónunnar verið nokkuð stöðugt í sex mánuði án inngripa Seðlabanka sem er til marks um það að gjaldeyrishöftin halda, enda er tekið hart á þeim sem sniðganga þau. Ég get verið fullkomlega sammála Samtökum atvinnulífsins þegar þau kalla eftir lækkun vaxta og afnámi gjaldeyrishafta enda eru þetta mikilvæg atriði við endurreisn efnahagslífsins. Samtök atvinnulífsins vilja svipta höftunum af í einum hvelli en með því væri tekin áhætta af 600 milljarða kr. útstreymi sem gæti kallað fram nýja gengislækkunardýfu og það mundi síðan leiða til hærri vaxta, meiri verðbólgu og um leið hægari efnahagsbata bæði fyrir atvinnulífið og heimilin. Enn um sinn að mínu mati verður því að fylgja varfærinni stefnu sem miðar að hægfara afléttingu gjaldeyrishaftanna.

En hvað um annað markmiðið, endurreisn bankanna? Fjármálakerfið hefur verið endurreist og nýju viðskiptabankarnir þrír eru nú fullfjármagnaðir í samvinnu við lánardrottna gömlu bankanna sem féllu. Bankarnir hafa borð fyrir báru til að mæta áföllum og geta tekið til við endurskipulagningu á fjárhag heimila og lífvænlegra fyrirtækja og útvegað fé til reksturs í íslensku atvinnulífi. Það skiptir höfuðmáli fyrir framhaldið að efnahagur skuldsettra heimila og fyrirtækja sé endurreistur og það gerist hratt, en það er ekki vandalaust og það mun hvorki gerast átakalaust né snurðulaust ef við ætlumst til þess að það gerist á gagnsæjan hátt þar sem sjónarmið um réttlæti, sanngirni og virka samkeppni eru í fyrirrúmi. Efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar miðar að því að koma fótunum undir atvinnulífið og heimilin á sem allra stystum tíma.

Hagkerfið ætti að vaxa á nýjan leik síðar á þessu ári og atvinnuleysi dragast saman þó að það muni minnka hægar en við vildum. Á móti kemur þó að sú innspýting í efnahagslífið sem heimild til útgreiðslu séreignarsparnaðar hefur í för með sér, hefur reynst sambærileg við bein framlög annarra ríkja til þess að örva hagkerfið í niðursveiflu eða um 1% af þjóðarframleiðslu. Það er m.a. skýringin á því að einkaneysla hefur ekki dregist eins mikið saman og búist hafði verið við og fjármálaráðuneytið gerir ráð fyrir álíka mikilli útgreiðslu í ár. Sá árangur efnahagsstefnunnar sem var að koma í ljós undir lok síðasta árs vakti alþjóðlega athygli. Það var tekið eftir því að efnahagsmálum miðaði í rétta átt á Íslandi eftir bankahrunið.

Endurreisn bankanna er mikilvæg forsenda fyrir framvindu í efnahagslífinu og reyndist auk þess 250 milljörðum ódýrari en spáð var. Vextir eru nú lægri en þeir hafa verið í fjögur ár, lækkuðu úr 18% í 9,5%, verðbólgan er lægri en hún hefur verið í tæp tvö ár. Atvinnuleysi var 2 prósentustigum minna en spáð var um áramótin og samdráttur efnahagslífsins er ríflega 3% minni en ætlað var. Þessi þróun var m.a. viðurkennd með þeim hætti að skuldatryggingarálag á ríkið lækkaði um helming á árinu sem leið.

Það fólust vissulega skýr skilaboð í þessum árangri, þetta var árangur mikillar staðfestu við að framfylgja efnahagsstefnu stjórnvalda. Baráttan hefur þó orðið erfiðari undanfarnar vikur og það skal viðurkennt. Ákvörðun forseta um að synja Icesave-lögunum staðfestingar hefur þegar valdið töfum á endurreisninni. Peningastefnunefnd Seðlabankans hefur lýst því yfir að vextir hefðu lækkað meira en raun bar vitni hefði lausn verið fengin í Icesave-deiluna og vextir eru því hærri en þeir þyrftu að vera. Auk þess er ljóst að Seðlabankinn mun ekki taka næstu skref í afnámi gjaldeyrishaftanna fyrr en við leysum Icesave-hnútinn og lánshæfismat Íslands er núna í eða við ruslflokk. Ný spá Seðlabanka Íslands gerir ráð fyrir 5% samdrætti í ár í staðinn fyrir 3% ef stórframkvæmdir tefjast frekar og að atvinnuleysi verði 2% meira við áramót en annars hefði verið. Við megum því ekki við frekari töfum ef við ætlum að hnekkja hrakspánum eins og við gerðum í fyrra.

Samstaða stjórnar og stjórnarandstöðu um næstu skref í Icesave-deilunni eru því mikið fagnaðarefni. Pólitískt karp án lausna er ekki það sem Alþingi þarf nú og slíkt pólitískt karp er ekki það sem þjóðin kallar eftir, hún kallar eftir lausnum og von um bættan hag. Ég vonast eftir að sjá jákvæða niðurstöðu af þeirri samvinnu sem myndast hefur í Icesave-málinu undanfarna daga og að hún muni verða leidd til lykta á skjótan hátt og nýjustu fréttir af samningaviðræðunum vekja vonir um árangur.

Um þriðja markmið efnahagsstefnunnar, jafnvægi í ríkisfjármálum, er það að segja að á síðasta ári var ríkisfjármálahallanum beitt til þess að milda áhrif efnahagsáfallsins. Halli ríkissjóðs er hins vegar af þeirri stærðargráðu að til frambúðar er ríkið ekki sjálfbært með þeim hætti. Þess vegna er höfuðnauðsyn að ná halla ríkissjóðs úr 218 milljörðum í 99 milljarða kr. halla 2010 og 22 milljarða halla á fjárlögum 2011, sem mun taka gífurlega mikið á við fjárlagagerðina á næsta ári, ekki síst vegna þess að við erum komin að þolmörkum þess sem velferðarkerfið þolir. Markmiðið er að frumjöfnuður verði í jafnvægi árið 2011 og heildarjöfnuður í jafnvægi árið 2013, en skuldsetning ríkissjóðs á samkvæmt þessu að verða 60% af vergri landsframleiðslu til lengri tíma litið.

Ríkisstjórnin hefur lagt hart að sér að ljúka annarri endurskoðun efnahagsáætlunar stjórnvalda við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og er vonandi að það takist sem fyrst. Endurskoðunin er það græna ljós sem erlendir fjárfestar og fjármálastofnanir vilja sjá áður en þeir líta til Íslands. Í ljósi mikilvægis efnahagsáætlunar fyrir íslenskt efnahagslíf sættum við okkur að sjálfsögðu ekki við að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sé nýttur til þess að knýja fram niðurstöðu í tvíhliða deiluefnum ríkja líkt og Bretar og Hollendingar hafa beitt sér fyrir.

Það er góður árangur í mörgum geirum íslensks atvinnulífs, útflutningsatvinnuvegir og ferðaþjónusta njóta góðs af lágu gengi og nýsköpunar- og frumkvöðlastarfsemi hefur þrifist vel. Nýsamþykkt lög um ívilnanir til nýsköpunarfyrirtækja ýta undir þá þróun.

Virðulegi forseti. Ríkisstjórnin vinnur af heilindum að því að framfylgja stöðugleikasáttmálanum og hefur kynnt ýmsar aðgerðir í atvinnu-, nýsköpunar- og vinnumarkaðsmálum til að bæta atvinnuástandið. Enn er mikið ógert og ríkisstjórnin vinnur að því hörðum höndum að koma atvinnuástandinu í betra horf og það þarf að leggja mikinn kraft í það og leggja enn meiri vinnu í það að (Forseti hringir.) koma heimilunum til bjargar.