138. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2010.

staða efnahagsmála.

[14:58]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Það getur verið gagnlegt að fara yfir söguna til að reyna að læra af henni og ég held að það væri mjög æskilegt að fara yfir sögu núverandi ríkisstjórnar þegar við reynum að átta okkur á því hvað þarf að gera öðruvísi.

Við skulum minnast þess að þessi ríkisstjórn var upphaflega mynduð vegna þess að það þurfti á þeim tíma að ráðast í aðgerðir sem máttu ekki bíða, þær máttu ekki bíða í nokkra daga, hvað þá nokkrar vikur. Þegar ríkisstjórnin var mynduð var hún alveg sammála um þetta og raunar lá svo á við stjórnarmyndunina að ekki var hægt að klára það að standa almennilega að því, svo mikið lá þeim á að fara að taka á vandanum að eigin sögn.

Hvað gerðist svo? Það gerðist ekki neitt. Þremur vikum síðar þegar okkur framsóknarmönnum þótti nóg um biðina sem þá var orðin allt, allt of löng eftir þrjár vikur, lögðum við fram tillögur til úrbóta í efnahagsmálum, m.a. tillögu um skuldaleiðréttingu. Því var vægast sagt illa tekið af stjórnvöldum sem vildu ekki ræða kosti og galla tillagnanna, litu á þær sem ógn, truflun, og eyddu alveg ótrúlegum kröftum í að kveða þetta allt saman í kútinn. Núna er liðið meira en ár og það hefur afskaplega lítið verið gert. Það hefur mjög lítið komið frá þeirri ríkisstjórn sem lá svo á að hefja aðgerðir. Ríkisstjórnin leyfir sér hins vegar að nota alltaf aftur og aftur þessa sömu aðferð, þetta sama tal um að það megi engan tíma missa en það þurfi bara að klára tiltekin atriði áður en hún geti hafist handa. Fyrst var það myndun stjórnarinnar sjálfrar, svo var það að skipta um í Seðlabankanum, leggja inn umsókn um aðild að Evrópusambandinu, biðin eftir fyrstu endurskoðun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, allt átti þetta að vera síðasta hindrunin sem ryðja þurfti úr vegi til að ríkisstjórnin gæti komist af stað. Og nú er það Icesave og alveg furðulegt að heyra hæstv. forsætisráðherra koma hér upp eina ferðina enn og halda því fram að ekki sé hægt að gera neitt fyrr en Icesave klárast. (PHB: Hótanir.) Og vextirnir — já, þetta eru hótanir eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal bendir á — vextirnir geta ekki einu sinni lækkað. Við fengum reyndar kannski dálitla skýringu á því þegar einn af fulltrúum forsætisráðherra í peningastefnunefnd Seðlabankans lýsti því yfir að íslenska þjóðin gæti borgað allar kröfur Breta og Hollendinga og vextir lækki hugsanlega ekki fyrr en menn gera það. Það er sem sagt búið að setja inn í sjálfa peningastefnunefndina manneskju sem aðstoðar við það að halda landinu í gíslingu.

Það gerist ekki neitt hvað sem líður Icesave, hvað sem líður umsókn um aðild að Evrópusambandinu eða mannaskiptum í Seðlabankanum nema ríkisstjórnin grípi til þeirra róttæku aðgerða sem þarf til að bregðast við þeim vanda sem við erum í. Það er það sem ríkisstjórnin átti að gera á fyrstu vikunni en hefur ekki gert enn. Þess í stað frestar hún öllu sem hægt er að fresta, lán eru sums staðar fryst mánuð í senn. Það eru tekin lán, meira að segja hjá álframleiðendum eru tekin lán. Ríkisstjórn sem vinstri grænir sitja í er komin út í það að taka lán hjá álfyrirtækjum til að geta haldið sér gangandi aðeins lengur.

Í niðurskurðinum, í sparnaðinum er ekki heldur hugsað til framtíðar. Þar er skorið niður til að mynda í kvikmyndagerð þó að augljóst sé að hver króna sem Íslendingar setja í kvikmyndagerð, íslenska ríkisvaldið, skili sér margfalt til baka í gjaldeyristekjum. Nei, það er ekki hugsað ár fram í tímann, hvað þá fimm eða tíu ár, það er bara hugsað um að fleyta sér örlítið lengra áfram og það er stefna sem er stórhættuleg við þær aðstæður sem við erum í. Við þurfum ríkisstjórn sem veitir framtíðarsýn og er tilbúin til að ráðast í þær róttæku aðgerðir sem þarf.

Þar er vandinn fyrst og fremst einn, hvort sem litið er til ríkisins, sveitarfélaga, fyrirtækja eða heimila, vandinn liggur í skuldsetningunni. Innviðir íslensks samfélags eru sterkir og framleiðslugetan, og eins og hæstv. forsætisráðherra nefndi eru útflutningsgreinarnar sterkar, þær eru að flytja út miklu, miklu meira en við flytjum inn. En allt fer þetta til spillis ef ekki er tekið á skuldavandanum og þar þarf að byrja hjá heimilunum vegna þess að á meðan heimilin eru í gíslingu skulda, geta þau ekki gert það sem þau þurfa að gera til að koma atvinnulífinu af stað. Þau geta ekki viðhaldið nauðsynlegri lágmarksneyslu í samfélaginu og þvert á móti, skuldsetningin sem áfram hvílir á heimilunum og fyrirtækjunum og ríkinu án þess að nokkuð sé aðhafst heldur hér öllu í frosti.

Hvað er svo gert með þessa skuldsetningu í stað þess að vinna á henni? Vextirnir eru látnir halda áfram að hrannast upp. Hér er haldið uppi alveg óskiljanlega háum vöxtum. Það eitt að keyra niður vextina, eins og ríkisstjórnin þarf hreinlega að fara að hafa forgöngu um, mundi setja hlutina af stað. Ef við gætum lækkað vextina mundum við spara gríðarleg útgjöld fyrir ríkið sem er að borga alla þessa vexti, en líka losað um fjármagn sem kæmist þá loksins af stað og gæti nýst í öllum þeim tækifærum sem þrátt fyrir allt eru til staðar.

Fyrr í dag hitti ég sendiherra Indlands á Íslandi sem taldi upp fjöldann allan af tækifærum sem Íslendingar hefðu. Indverjar hefðu hugsanlega áhuga á að reisa hér kísilflöguverksmiðju og jafnvel bílaverksmiðju, framleiða hér umhverfisvæna bíla með umhverfisvænni orku, möguleikar Íslands væru nánast óteljandi. Þessir möguleikar Íslands verða ekki nýttir að því er virðist með þessa ríkisstjórn. Ég held því að ef það er einhver hindrun fyrir því að Ísland geti risið úr öskustónni efnahagslega sé það ekki Icesave heldur sú ríkisstjórn sem (Forseti hringir.) við sitjum uppi með.