138. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2010.

staða efnahagsmála.

[15:11]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Hér er ágætisumræða um efnahagsmál og ekki seinna vænna. Ég mundi frekar kjósa að sjá þessa hluti í svolítið stærra samhengi en menn hafa verið að tala um. Hinn aukni útflutningur íslenskra fyrirtækja er að vissu leyti góður og virkilega góður en ástæðurnar fyrir honum eru engu að síður gríðarlegt fall krónunnar og það að íslenskt vinnuafl er það ódýrasta í Evrópu nú um stundir og það er hin hliðin á þeim peningi. Stóra samhengið er að sjálfsögðu hvaða fjármunum verið er að verja af almannafé sem lagt hefur verið í banka og fjármálastofnanir, í afskriftir til fyrirtækja, í afskriftir til einstaklinga.

Við höfum búið við blandað hagkerfi undanfarna áratugi, að einhverju leyti og stórum hluta kannski markaðshagkerfi eins og menn hafa talað um, en við búum við þá stöðu í dag að það kerfi nánast hrundi til grunna. Það sem verið er að gera hér og hefur verið í bígerð undanfarið er að taka úr sambandi þá þætti þess kerfis sem gera það að verkum að það gengur. Ein af grundvallarundirstöðum slíks markaðshagkerfis er t.d. skilvirk og góð gjaldþrotalöggjöf til þess að hagkerfið geti rétt úr kútnum aftur. Það sem við horfum hins vegar upp á hér í þeim efnum er að það er verið að beita smáskammtalækningum tuttugu sinnum á dag, reyna að lækna hluti tímabundið með einhverjum smáaðgerðum í staðinn fyrir að reyna að laga hlutina í stærra samhengi. Þetta mun á endanum verða mjög dýrt.

Áður fyrr, fyrir einu og hálfu ári síðan, var offramboð á fé og fjármálastofnunum. Það leiddi til offramboðs m.a. á íbúðarhúsnæði. Við búum við þá stöðu núna að íbúðareigendur eru þúsundum saman á barmi gjaldþrots og í stað þess að afskrifa skuldir á þeim að einhverju marki þannig að gagn sé að, er af hálfu ríkisstjórnarinnar verið að festa þá í skuldafangelsi til 40 ára. Það er stóra samhengið sem þetta snýst um. Þess vegna flytur fólk úr landi, það flytur úr landi vegna þess að það sér ekki fram á að það verði mjög lífvænlegt hér til frambúðar.

Gjaldþrotalöggjöfinni sem slíkri hefur verið kippt meira og minna úr sambandi á öllum sviðum. Það þýðir einfaldlega að gangverk hins svokallaða markaðshagkerfis er ekki lengur virkt og það þýðir að menn standa frammi fyrir ástandi sem er í rauninni algjörlega óþekkt og engin fordæmi fyrir. Hvernig á að bregðast við slíku ástandi til lengdar og hvað ætla menn að hafa svona ástand lengi? Hvenær á að fara að láta þá verða gjaldþrota sem þarf að láta verða gjaldþrota? Hve lengi á að prjóna inn í smáskammtalækningar út og suður? Það er þetta. Það er engin framtíðarsýn, það eru engin langtímamarkmið í gangi. Þetta hefur kostað þjóðfélagið alveg gríðarlega fjármuni, þetta er búið að kosta þvílíkt siðrof og heldur áfram að gera það, vegna þess að enn er verið að moka fjármunum skattgreiðenda í þá útrásarvíkinga sem bera beina ábyrgð á þessu.

Ég set líka ríkisvaldið sjálft og Alþingi og Ríkisendurskoðun í þetta samhengi. Seðlabankinn tapaði 350 milljörðum. Ég hef undanfarna mánuði verið að reyna að fá það í gegn í fjárlaganefnd að gerð verði stjórnsýsluúttekt á Seðlabankanum vegna þessa. Það fæst einfaldlega ekki í gegn. Hvað er eiginlega að hér? spyr ég nú bara. Til hvers er Alþingi, ef það rannsakar ekki 350 milljarða kr. tap ríkisstofnunar?

Við höfum tengsl atvinnulífs og stjórnmála. Við höfum gagnaverið. Við höfum einkavæðinguna. Ég ræði við embættismenn og starfsmenn alþjóðastofnana í hverjum mánuði og oft í hverri viku og þegar uppbygging gagnaversins á Keflavíkurflugvelli kemur til tals reka þeir upp stór augu og segja: Hvað er eiginlega að ykkur? Það skiptir máli hvaðan peningarnir koma, það verður bara að viðurkenna það. Og það er ekki bara einn eigandi sem það á við, heldur allir eigendur Verne Holdings sem eru með slíkan feril og slíka fyrirtækjarunu og slíka gjaldþrotarunu að það hálfa væri nóg. Það er ekki hægt að selja sig hverjum sem er, því miður. Það er bara ósiðlegt.

Svo höfum við líka verðtrygginguna. Hvað hefur verið gert í verðtryggingunni? Það liggur fyrir frumvarp frá hv. þm. Eygló Harðardóttur sem samkomulag varð um við afgreiðslu þingmála fyrir jól að tekið yrði úr nefnd þann 10. febrúar og fengi hér eðlilega þinglega meðferð. Það situr enn þá fast í þeirri nefnd. Það er loforð sem við hermum upp á ríkisstjórnina, hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra, að þeir efni.

Við höfum frumvarp Lilju Mósesdóttur um samningsveð, sem mundi leysa fólk undan 40 ára skuldafangelsinu. Hvar er það? Það er fast í nefnd. Hagsmuna hverra er meiri hluti þingmanna á Alþingi að gæta? Hér er ekki verið að gæta hagsmuna almennings. Það er ekki verið að gera nóg. 4.825 brottfluttir umfram aðflutta er reikningurinn og hann á eftir að verða hærri. Þetta eru einstaklingar, og það skiptir ekki máli hvort þeir eru útlendingar eða Íslendingar, sem búa til þjóðarframleiðslu sem minnkar og það skiptir ekki máli hverrar þjóðar þeir eru. Þetta eru einstaklingar sem búa til skatttekjur fyrir ríkissjóð sem munu stórminnka í framhaldinu.

Hér vantar algjörlega allt (Forseti hringir.) samhengi og alla framtíðarsýn. Ég auglýsi einfaldlega eftir henni.