138. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2010.

staða efnahagsmála.

[15:34]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg):

Frú forseti. Á síðasta ári varð minni samdráttur vergrar landsframleiðslu en gert hafði verið ráð fyrir. Meginástæða þess var að hallarekstur ríkissjóðs nam um 14% af vergri landsframleiðslu. Örvandi áhrif hallans hefðu orðið meiri ef vextir hefðu verið lækkaðir hraðar. Þannig hefði orðið meira samræmi á milli arðsemi fjárfestinga í atvinnulífinu og ávöxtunar á bankabókum. Á þessu ári verður að draga úr halla ríkissjóðs þar sem vaxtagreiðslur stefna í að verða 180 milljarðar kr. Hversu hratt á að fara í niðurskurðinn fer eftir því hvernig tekst til við að leysa úr skuldavandræðum heimila og fyrirtækja. Skuldaniðurfellingar eru nauðsynlegar til að örva eftirspurn og framleiðslu í hagkerfinu.

Eitt mikilvægasta verkefni okkar stjórnmálamanna á þessu ári er að leysa skuldavanda heimila og fyrirtækja. Úrlausn skuldavandans mun ráða miklu um hvort Ísland útrásarinnar eða nýtt samfélag rís úr öskustó fjármálakreppunnar, þ.e. hvort við munum sjá hér meira réttlæti og meiri félagslegan jöfnuð en síðustu tvo áratugina.

Frú forseti. Samþjöppun auðs og valda færði fjárglæframönnum einstakt tækifæri til að auðgast á kostnað almennings. Koma verður í veg fyrir að slíkar aðstæður skapist aftur í ljósi þess að ein fjármálakreppa útilokar ekki aðra. Herða verður regluverkið og skylda lánastofnanir til að hafa eftirfarandi meginreglur að leiðarljósi við sértæka skuldaaðlögun fyrirtækja: dreift eignarhald fyrirtækja, aðkomu starfsfólks þegar fyrirtæki fara ekki í opið söluferli og útilokun eigenda sem ekki standast álagspróf sem byggir ekki síst á fyrri störfum eigenda fyrirtækja.

Frú forseti. Íslensk heimili hafa aldrei áður verið jafnskuldsett. Þau munu eiga í miklum erfiðleikum með að taka á sig 50% lækkun fasteignaverðs. Þeir sem keyptu fasteignir eftir 2004 ráða ekki við bæði lækkun fasteignaverðs og hækkun höfuðstóls fasteignalána. Óánægja er með skuldaúrræði heimila og að þau séu mismunandi eftir lánastofnunum.

Frú forseti. Enn vantar úrræði fyrir fórnarlömb kreppunnar. Fórnarlömbin eru þeir sem ekki geta greitt af skuldabyrði undir 80% af markaðsvirði fasteignar. Fólk án atvinnu tilheyrir þessum hópi. Úrræði vantar sem sleppa fólki úr skuldafangelsi. Gefa verður fólki möguleika á að losa sig við yfirveðsettar eignir án eftirmála og auka verður framboð af félagslegu húsnæði. Auk þess þarf að koma í veg fyrir að kröfuhafar geti endurvakið kröfur lengur en í fjögur ár.

Frú forseti. Sátt mun aldrei nást um skuldaúrræði heimilanna nema gripið verði til almennra úrræða. Með því að lögleiða einungis lágmarksúrræði og leyfa samkeppni um viðbótarúrræði er bönkunum gefið einstakt tækifæri til að afskrifa lán hjá vildarviðskiptavinum sínum.