138. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2010.

staða efnahagsmála.

[15:38]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Frú forseti. Hér ræðum við efnahagsmál. Hefur ýmislegt áhugavert komið fram í þeirri umræðu og óþarfi að endurtaka það. Ég get tekið undir margt en það er einkum tvennt sem mig langar að bæta við þessa umræðu. Annað er atvinnuleysi, en það er auðvelt að færa rök fyrir því að það sé í raun stórlega vanskráð. Við Íslendingar höfum komið okkur upp duldu atvinnuleysi á ógnarstuttum tíma. Það hefur einkum gerst með tvennum hætti, fólk hefur flutt úr landi í auknum mæli, en 4.835 fleiri fluttu frá Íslandi en til landsins árið 2009 samkvæmt Hagstofunni. Það fólk væri annars á atvinnuleysisskrá. Margir hafa líka kosið að stunda nám í stað þess að vera atvinnulausir sem er auðvitað ágætt svo langt sem það nær en á sama tíma er skorið niður í menntakerfinu sem getur þá illa mætt þessum fjölda. Ég held, frú forseti, að okkur sé óhætt að bæta hressilega við þær tölur um atvinnuleysi sem ríkisstjórnin hreykir sér af því að ekki er allt talið með.

Hitt sem mig langar að bæta í umræðuna er bág staða ýmissa minni fyrirtækja. Stór fyrirtæki eru ekki endilega betri en þau smærri, þvert á móti bendir ýmislegt til þess að þau skili meiri arðsemi inn í hagkerfið en þau stóru og að samfélagsleg ábyrgð þeirra sé meiri en stærri fyrirtækja þar sem taumlaus arðsemiskrafa og ofurvöxtur, ofurvöxturinn sem hefur kostað okkur allt of mikið nú þegar, ráða of miklu við ákvarðanatöku.

Ég hef áhyggjur af stöðu minnstu fyrirtækjanna. Eftir því sem ég kemst næst fá þau litla sem enga fyrirgreiðslu og sveigjanleiki í rekstri er enginn. Mörg þessara fyrirtækja eru í eigu fárra aðila með sjálfskuldarábyrgð og leggst bág staða þeirra því oft af fullum þunga á fjölskyldur eigendanna sem í ofanálag geta ekki alltaf greitt sér laun.

Rétt eins og heimili landsins sem eru bundin á skuldaklafa fá þessi fyrirtæki sjaldnast nokkra fyrirgreiðslu að gagni. Í raun er verið að refsa þeim fyrir skynsamlegan, ábyrgan og hóflegan rekstur því að á sama tíma fá þeir sem fóru of geyst og komu okkur á kaldan klaka tugi og jafnvel hundruð milljóna afskrifuð.

Hæstv. ríkisstjórn og hv. stjórnarþingmönnum mörgum verður tíðrætt um sprotafyrirtæki og nýsköpun. Mér finnst það góða fólk gleyma því að mörg þau rótgrónu og góðu fyrirtæki sem nú eru í vanda stödd, vanda sem er til kominn vegna forsendubrests en ekki glannaskapar eða vítaverðrar hegðunar stjórnenda, voru mörg hver sprota- og nýsköpunarfyrirtæki sem nú hafa náð fullum þroska.

Það kostar miklu meira átak að skapa ný atvinnutækifæri en að létta undir með lífvænlegum fyrirtækjum í tímabundnum vanda.

Frú forseti. Til þess þurfum við lægri vexti, verðtrygginguna burt og mannlegra og sanngjarnara viðmót til fólks og fyrirtækja í vanda, ekki bara þeirra sem skulda tugi milljarða.