138. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

370. mál
[16:19]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Ásbjörn Óttarsson minntist á ýmis atriði um skiptingu landsins í svæði og tímasetningar í þeim efnum, þetta er alveg hárrétt og sjálfsagt að skoða. Þess vegna er lagt til í þessu frumvarpi að það sé ekki bundið í lög heldur sé ráðherra heimilt að fara eftir reynslu á hverjum tíma um hvernig best sé að haga þessu og slíkt getur meira að segja breyst á milli ára. En ég vil leggja áherslu á að menn eigi að gera út frá einu svæði. Þeir eiga bara að skrá sig á eitt svæði og eiga þar heimilisfesti eða gera þaðan út, þeir mega ekki færa sig á milli svæða á tímabilinu og það er mjög mikilvægt.

Ég er alveg sammála hv. þingmanni um að þau atriði sem hann nefndi gæti þurft að endurskoða og reynslan í sumar bendir einmitt til þess, eins og hv. þingmaður minntist á, að fyllilega réttmætt sé að endurskoða þá skiptingu.