138. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

370. mál
[16:22]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta gæti svo sem verið sjónarmið hjá hv. þingmanni að hafa þetta bara eitt svæði en þá vil ég minna á nokkur önnur markmið með þessari tilhögun. Í fyrsta lagi er sett ákveðið heildarmark afla sem má veiða í þessu kerfi þannig að í sjálfu sér er þetta ekki frjálst hvað það varðar. Í öðru lagi er markmiðið líka að byggðirnar vítt og breitt um landið hafi allar nokkuð jafnan aðgang að því að sækja miðin undir þessu kerfi. Ef við settum þetta í einn pott væri hættan sú að ákveðin byggðarlög yrðu algerlega út undan í því að eiga möguleika á að nýta sér þetta. Við minnumst þess. Þetta er ekki hugsað sem einhverjar stóratvinnuveiðar. Þetta er ekki hvað síst hugsað sem samfélagsleg aðgerð. Þess vegna vara ég við því að fara út í þessar veiðar og halda að þetta sé einhver stór atvinnuvegur, þetta er ekki hugsað sem slíkt. Vissulega skaffar þetta þeim tekjur sem fara út í þetta á þeim afmarkaða tíma sem er en þetta er líka samfélagslegt mál og því tel ég óráð að hafa landið eitt svæði. Ég vil að fyrir hvert svæði séu fráteknir ákveðnir möguleikar í þessum efnum svo þetta safnist ekki saman á einn stað.

En eins og hv. þingmaður minntist á þá vinnum við okkur áfram í þessu en prinsippið hefur greinilega tekist vel. Ég minnist þess að bæjarstjórnin í Snæfellsbæ rakti sérstaklega hve miklar tekjur hefðu komið inn í samfélagið og til hafnanna vegna strandveiðanna og ég held að þó svo að sumir lýsi óánægju sinni með þetta þá hafi langflestir lýst mikilli ánægju með þetta kerfi eins og það fór í gang.