138. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

370. mál
[16:45]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mér þykir það ákaflega leitt ef ég hef mistúlkað orð hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar en sú tilvitnun sem hann lagði aðallega út af með sóknina í strandveiðarnar var tilefni til þess að ég kom hér upp því að í þessum niðurstöðukafla eru mun veigameiri þættir sem hafa komið til umræðu sem má líta á sem ályktun skýrsluhöfunda. Niðurstaðan er sú að reynslan af strandveiðunum var ákaflega góð og það er ekki rétt að halda því fram að áhrifin hafi einungis verið samfélagsleg og ekki efnahagsleg því að það er ekki það sem kemur fram í skýrslunni. Áhrifin voru efnahagsleg en þau voru ekki síður og enn frekar samfélagsleg eins og kemur fram á bls. 45.

Það er líka gleðiefni að sjá, þvert ofan í spár og umræður, að gæði aflans voru almennt talin mjög góð í strandveiðunum. Það er því vissulega ánægjuefni að sjá þessar jákvæðu niðurstöður og ánægjuefni sem við ættum að eiga sameiginlegt, ég og hv. þingmaður, að eiga þess kost að taka þetta frumvarp til frekari efnislegrar umfjöllunar í hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd og geta lagt því þar gott til.