138. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

370. mál
[16:53]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Í fyrsta lagi er fullkomlega alrangt að segja að þessi svæðaskipting hafi mistekist hrapallega. Það sem helst gerðist var það að ekki tókst að fá frumvarpið afgreitt fyrr á þinginu í vor þannig að hægt væri að ná heilu sumri inn í málið og þeir sem biðu eftir að fá að taka þátt í veiðunum voru orðnir mjög langeygir. Sem betur fer eru sjómenn kappsamir og allir þeir sem fara á sjó kappsamt fólk. Það var það sem var ábyrgðarhluti, úr því að ljóst var eða a.m.k. sterkar líkur voru á að málið mundi ná fram, að þingið skyldi ekki afgreiða það fyrr þannig að heilt sumar næðist inn.

Þess vegna er mjög mikilvægt núna að frumvarpið komist sem hraðast í gegnum þingið þannig að fólk geti þá undirbúið sig hvað þennan þátt varðar. Það er fullkomlega rangt að halda því fram að svæðaskiptingin hafi verið röng. Það er alveg ljóst að fiskurinn kemur almennt fyrr að suðvesturhorninu og þá fyrr að sumrinu en … (EKG: Verður þá svæðaskiptingin óbreytt?) Við skoðum svæðaskiptinguna, en við teljum að það eigi að skoða breytingar á henni og meðal annars eins og með tilfærslu á Húnaflóasvæðinu. Það er hárrétt. En þetta munum við fara í gegnum. En það er samt mjög mikilvægt að hafa slíka svæðaskiptingu til þess að tryggja möguleika fólks, hvar sem það býr, til að nýta sér þennan möguleika.

Við verðum líka að horfa til hinna ýmsu jafnræðissjónarmiða í þessu efni, en auðvitað verður það svo um þetta sem annað að sitt sýnist hverjum og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson getur haft sína skoðun á því. Ég held meira að segja að þetta sé mjög gott fyrir Vestfirði, ef ég segi bara alveg eins og er.