138. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

370. mál
[17:11]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Illugi Gunnarsson hefur allnokkur stór orð uppi enda er hann að verja með kjafti og klóm óbreytt kerfi sem verið hefur mjög umdeilt. Ég virði það þegar hv. þingmenn ganga fram með þeim hætti og vilja tryggja það sem fiskveiðiauðlindin er í og færist á hendur enn færri. Ég er ekki sammála þeirri stefnu. Það má vel vera að fjárhagsleg hagkvæmni rekstrarlega séð út frá einhverjum gefnum slíkum reiknilíkönum megi reikna það út, en það er bara ekki þannig sem við viljum hafa það. Íslensk þjóð er ekki sátt við að hafa það þannig. Þar greinir okkur á.

Það kerfi sem við erum að tala um er samt ekki sú stóra þúfa sem hv. þingmaður er að velja þessi stóru orð. Hins vegar hef ég og við sem stöndum að frumvarpinu lagt áherslu á það að réttur íbúa sjávarbyggðanna til að mega fara á sjó, þótt mjög afmarkað sé, réttur til að mega fara á sjó og sækja afla og fénýta sér hann innan mjög takmarkaðra skilyrða og það er þann rétt sem við erum vissulega að sækja þó með þessum hætti. Ég vil minna á að það er til fjöldi smárra báta í landinu og af hverju má ekki líka nýta þá fjárfestingu í sjálfu sér þjóðarbúinu til hagsbóta yfir sumarmánuðina? Það er ekki verið að leggja í einhverjar stórar nýfjárfestingar, alls ekki, heldur fyrst og fremst að nýta þær fjárfestingar sem til eru. En það er alveg hárrétt að verið er að færa þarna ákveðinn afmarkaðan rétt til að fara á sjó (Forseti hringir.) til íbúa sjávarbyggðanna vítt og breitt um landið. Það er alveg hárrétt og það er líka mikilvæg stefnumörkun af minni hálfu.