138. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

370. mál
[17:14]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg hárrétt hjá hæstv. sjávarútvegsráðherra að hér er um eina þúfu að ræða. En ég óttast að þegar hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur farið höndum sínum um sjávarútvegskerfið breytist það úr túni yfir í kagþýfðan völl þar sem enginn kemst yfir og allt verður til vandræða og verður að axarskafti þegar upp er staðið.

Hæstv. ráðherra sagði: Það er ekki það sem verið er að horfa á, krónur og aurar, einhver hagkvæmni, rekstrarniðurstöður eða líkön, hvað svo sem það þýðir með líkönin. En það er nákvæmlega það sem þetta snýst allt saman um. Saga fiskveiðistjórnar á Íslandi er akkúrat um það, þann bardaga á milli þeirra sem hafa sagt: Okkur ber skylda til fyrir hönd íslenskrar þjóðar að nýta þessa auðlind þannig að hún skapi rentu og auðlegð fyrir þjóðina annars vegar, og hina sem hafa sagt: Við skulum bara hafa þetta allt saman opið. Við skulum leyfa hverjum sem er að fara að veiða vegna þess að við lítum á okkur sem handhafa réttlætis og við höfum skilgreint það sem réttlæti að allir geti farið út og veitt.

En hvert verður þá réttlætið? Hvert var réttlætið í skrapdagakerfinu þegar við bjuggum við opinn aðgang? Hvert var réttlætið í hinum opna aðgangi? Hvert er réttlætið í því fyrirkomulagi sem við höfum við makrílveiðarnar? Það er ekkert réttlæti í því, frú forseti, að verið er að sólunda auðlindinni með því að stórauka útgerðarkostnaðinn til að sækja sama magn af fiski sem hægt er að ná með öðrum og hagkvæmari hætti. Með öðrum orðum, ef við færum þá leið sem hæstv. ráðherra er að ýja að, að láta okkur litlu varða um hagkvæmni, litlu varða um þessi líkön eins og hæstv. ráðherra orðar það, þá er auðvitað hægt að fara með þetta þannig, eins og við vorum á góðri leið með að gera í skrapdagakerfinu, að útgerðarkostnaðurinn og kostnaðurinn við vinnsluna verði sá hinn sami og það sem við fáum fyrir auðlindina, með öðrum orðum að rentan verði engin, að við eyðum og sólundum allri auðlindinni með röngu kerfi. Það, frú forseti, er ástæðan fyrir því að flestum þjóðum hefur mistekist fullkomlega að stjórna fiskveiðum sínum og víðast hvar þegar farið er um í heiminum sjá menn að fiskimenn og veiðimenn eru fátækir. Það er vegna þess að fyrirkomulag fiskveiðanna er víðast hvar í heiminum rangt.

Kvótakerfið er ekki gallalaust og ég stend ekki hér, frú forseti, til að verja hagsmuni einhverra annarra en íslenskrar þjóðar, heldur fyrir það að verja fiskveiðistjórnarkerfið fyrir því að (Forseti hringir.) það sé eyðilagt með því fyrirkomulagi sem hæstv. sjávarútvegsráðherra er að gera.