138. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

370. mál
[17:16]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla ekki að fara í kappræðu við hv. þingmann um að verja þetta kerfi eins og það hefur verið, það er ekki mín ætlan. Ég er að mæla fyrir nýju og mjög góðu máli sem eru strandveiðar og möguleiki til slíkra veiða vítt og breitt um landið. Það er það sem ég er að mæla fyrir en ekki að verja gamla kerfið sem hann heldur fram að sé algott.

Ég minni á að aðrar þjóðir, önnur lönd eru yfirleitt líka með eitthvert hliðstætt kerfi þar sem er afmarkaður réttur, eitthvert takmarkað svæði fyrir ströndum landsins til handfæraveiða þannig að þetta er ekki neitt sérstakt hér. Ef hv. þingmaður, sem ég veit að er vel að sér í þessum málum, gæti farið og kynnt sér hvernig þetta er í Noregi, í Færeyjum og í öðrum löndum þar sem menn búa við slíkar aðstæður, þá eru það í rauninni þær sem er verið að horfa hér til.

Hv. þingmaður minntist á makrílinn. Þar hljóp hann aðeins út af skeiðinu, því að við erum að semja við aðrar þjóðir einmitt um makrílinn og ég vonast til að við fáum þar góðan hlut. Við höfum sett fram kröfur fyrir hönd íslenskra stjórnvalda um ákveðna hlutdeild í þeim afla, sem er væntanlega mjög mikilvægt fyrir okkur að geta sótt, og einnig erum við að sækja um heimild núna með lögum til að geta gert kröfur á þá sem veiða makrílinn um að hann nýtist sem best til manneldis. Ég veit vel að flestar útgerðir vinna af heilum hug að því að svo sé gert, en það er líka stefnumörkun að hámarka þjóðhagslegan ábata af þessum veiðum, makrílnum eins og öðrum. Að sjálfsögðu er ekki hægt, þar sem ekki er heldur búið að semja um heildarmagn, að ganga endanlega frá veiðikerfi í þeim, en að sá grunnur verði lagður að það skuli vera hámarksnýting á þeim afla fyrir þjóðina sem heild. Við þurfum að horfa á samfélagið sem heild en ekki bara (Forseti hringir.) hagsmuni einstakra útgerðaraðila.