138. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

370. mál
[17:21]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Þá hleypur hæstv. ráðherra á dyr þegar ég ætlaði að fara að skamma hann. En hvað um það, ég ætla samt að gera það.

Mér fannst dálítið athyglisvert áðan, virðulegi forseti, þegar ég fór í andsvör við hæstv. ráðherra eftir að hann mælti fyrir frumvarpinu og ég var að benda á þá galla sem komu fram við svæðaskiptinguna í fyrra, að í fyrra andsvari hæstv. ráðherra tók hann heils hugar undir þetta vegna þess að hann vissi af því sem gerðist. — Nú gengur hæstv. ráðherra í salinn. — En í seinna andsvarinu og í andsvari við hv. þm. Einar K. Guðfinnsson fór hann í þann gírinn að verja þetta vitlausa fyrirkomulag — mér finnst það mjög dapurt því að í fyrsta andsvarinu sagði hann að menn mundu að sjálfsögðu skoða þetta, það hefðu komið margir gallar í ljós, sem það gerðu — og hafði fyrir því margvísleg óefnisleg rök að mínu mati. Ef hæstv. ráðherra ætlar að fara að skipta svæðunum niður á hvert einasta byggðarlag og þar fram eftir götunum, er það algerlega óframkvæmanlegt. Rökin fyrir svæðaskiptingunni, fyrir strandveiðunum síðasta sumar, voru þau að tekinn væri helmingurinn af aflanum, af þessum 4.000 tonnum voru 1.955 tonn tekin af byggðakvóta, og þá sagði hæstv. ráðherra: Byggðakvótinn er svo óréttlátur, honum er svo misskipt og margir óánægðir með hann og þess vegna er mjög skynsamlegt að gera þetta með þessum hætti.

Virðulegi forseti. Ég sagði þá í ræðu að það væri alveg öruggt að næst þegar hæstv. ráðherra mundi boða strandveiðar, eftir ár, yrði byggðakvótinn kominn á sama stað aftur, enda var það raunin. Það er þetta sem menn verða og hæstv. ráðherra verður að skoða betur og vera ekki með svona fordóma, því að það er alveg klárt og rétt sem hæstv. ráðherra sagði að fiskurinn gengur á mismunandi tíma upp á grunnslóðina. Hann byrjar að veiðast fyrr fyrir sunnan landið á skaki og svo færir hann sig norður eftir. Hæstv. ráðherra hefur öll tromp á hendi til að skipta magninu niður á mánuðina til þess að ekki verði ójafnvægi milli svæðanna. Því mér finnst dálítið sérkennilegt í ljósi þess sem gerðist að mörg byggðarlög eins og t.d. á Ísafirði eða Súðavík, þar lönduðu allir á Bolungarvík, og á Snæfellsnesi lönduðu allir í Ólafsvík og á Rifi frekar en róa innan úr Grundarfirði eða Stykkishólmi, það var mikið um það, náttúrlega ekki allir, það er ekki rétt, vegna þess að það var styttra á miðin. Ef menn vildu tryggja að allar byggðirnar hefðu jafnan aðgang, eins og eflaust er hugsun hæstv. ráðherra, væri mjög einfalt að lengja tímann, þ.e. að þeir aðilar sem búa lengra frá miðunum hefðu rýmri tíma. Ráðherra gæti breytt 14 tíma reglunni í 18 tíma reglu eða hvað það væri. Síðan gæti hann jafnað út vegna þess að þeir sem búa næst miðunum þurfa einungis kannski 10 tíma, 12 tíma eða 8 tíma eða hvað það, hann gæti jafnað þetta svona út. En að búa til einhverjar svæðaskiptingar eins og gert var síðasta sumar, sem voru algerlega misheppnaðar, eiga menn að forðast. Menn eiga að læra af mistökunum og til að læra af mistökunum verða menn að byrja á því að viðurkenna þau. Það er alveg kristaltært í mínum huga að menn þurfa að bregðast þannig við.

Það sem gerðist síðasta sumar, og ég sagði í andsvörum við hæstv. ráðherra áðan, var að menn færðu lögheimili útgerðanna, tugir manna, frá einum stað til annars, þ.e. allir sem voru á suðvesturhorninu eða margir og fyrir austan eða norðan, færðu þau inn á svæði A. Öll pósthólf, á Ólafsvík, Hellissandi, Patreksfirði eða hvar sem var, voru bara færð. Það er þannig sem menn munu fara að. En menn hafa önnur tæki til að bregðast við þessari hugsun og menn eiga að nýta sér þau. Ég vænti þess að hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd muni fara vel yfir þetta, því að eins og ég segi, á stöðum sem menn halda að þeir hafi ekki nógan aðgang að þessum veiðum vegna annmarka, þar á bara lengja tímann, þ.e. að rýmka tímann hjá þeim sem þurfa að róa lengra og þá koma þeir jafnfætis inn. Þannig er hægt að bregðast við þessu. Við höfum mörg önnur tæki en ég hvet menn til að skoða þetta mjög vel, sérstaklega í ljósi þess sem gerðist síðasta sumar þegar menn voru með svæðaskiptingu sem algerlega misfórst. Ég er reyndar búinn að dvelja lengur við þetta atriði en ég ætlaði og ætlaði reyndar ekki að koma inn á það vegna þess að mér fannst hæstv. ráðherra svara þessu mjög vel en svo snerist hann á augabragði og fór að verja þessa vitleysu sem klárlega kom í ljós síðasta sumar.

Ég vil hins vegar fara aðeins öðruvísi í þetta mál vegna þess að á sínum tíma, við skulum líka rifja upp söguna, þegar handfærakerfin voru eða hið svokallaða dagakerfi var, við skulum bara rifja það upp, það gerðist þannig að menn voru að róa og voru alltaf að framleiða báta inn í kerfið. Þá sögðu sömu aðilar og voru að róa í þessu banndagakerfi eða á þessu dagakerfi sem kallað var þá, handfæraveiðarnar: Stjórnvöld munu alltaf bregðast þannig við að við verðum réttir af. Og það var haldið áfram að smíða báta inn í kerfið og það er verið að gera það líka enn í dag. Það verður að hugsa þetta til enda því að menn munu ekki geta bætt við endalaust inn í þennan pott. Í fyrra voru það 4.000 tonn, núna verða það 6.000 tonn og svo koll af kolli. Ég hvet hæstv. ráðherra og hv. sjávarútvegsnefnd til að hugsa þetta aðeins lengra, því að þeir aðilar, og ég ætla að rifja það upp, sem börðust fyrir því að dagakerfið og handfæraveiðarnar væru lagðar niður voru þeir sömu og sem voru í kerfinu. Þetta var ekki krafa frá öðrum heldur eingöngu frá þeim sem voru inni í kerfinu vegna þess að dögunum fækkaði alltaf og hvað gerðist þá, virðulegi forseti? Það sem gerðist var að þeir sem voru búnir að búa sér til viðmiðun kröfðust þess að þeir fengju aflareynslu út á viðmiðunina vegna þess að þetta stefndi allt í eintóma vitleysu, að hver bátur gæti róið einungis örfáa daga á ári og þetta væri algerlega komið út fyrir öll velsæmismörk. Það voru þeir sem börðust fyrir því að handfærakerfið var lagt niður. Og það sem gerðist þá, virðulegi forseti, var að sú aflareynsla sem var inni í kerfinu var margföld miðað við það sem menn áttu að fá, þ.e. menn tóku aflaheimildir af þeim sem voru með þær fyrir, vertíðarbátunum og þeim sem halda uppi atvinnu í byggðarlögunum og færðu þær niður í þennan geira. Hver var svo reyndin? Það væri mjög áhugavert fyrir hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd að skoða það. Þessir aðilar, mjög margir, seldu sig strax út úr þessu kerfi, seldu strax frá sér aflaheimildirnar sem þeir voru að berjast fyrir að fá úthlutað. Margir af þeim eru akkúrat að koma inn í strandveiðarnar í dag, auðvitað ekki allir en mjög margir, þannig að sporin hræða. Ég er alveg sannfærður um að það mun ekki líða langur tími þar til hæstv. ráðherra fer að fá heimsóknir frá þeim sem eru búnir að selja sig út úr greininni tvisvar, þrisvar eða fjórum sinnum og segja: Strandveiðarnar geta ekki gengið, það er verið að framleiða báta, það verður að setja svo mikið inn í þetta eða takmarka svo mikið veiðarnar að það verður að úthluta aflamarkinu. Þannig gerðist þetta nákvæmlega með handfæraveiðarnar, nákvæmlega svona þegar þær voru lagðar af.

Ég hef hins vegar alla tíð sagt og hef verið hlynntur því að menn hafi val á því að koma inn í kerfið og hef talað fyrir því, og ég var mjög ósáttur við það þegar ákveðið var taka dagakerfið af og setja það inn í aflamark. Og það voru fleiri en ég, það er ekki eins og ég sé alvitur og viti allt en það voru mjög margir sem sögðu nákvæmlega það sama, að þetta mundi gerast og þetta er reyndin. Þeir aðilar sem fóru út úr kerfinu og eru búnir að selja sig mörgum sinnum út úr kerfinu eru margir hverjir komnir inn aftur. Þess vegna var það algerlega óskiljanlegt að mínu viti síðasta sumar hvers vegna það var ekki útilokað af hálfu stjórnarflokkanna að menn sem höfðu selt sig út úr greininni kæmu inn í greinina, inn í strandveiðarnar. Þeir gátu keypt sig inn í greinina með því að kaupa sér aflamark, það er allt í lagi með það, en ekki þarna, enda kemur það í ljós í skýrslunni að það er áætlað að það sé um 20% nýliðun í gegnum þetta kerfi. Menn verða að ræða hlutina nákvæmlega eins og þeir eru en ekki með einhverjum upphrópunum.

Í sjálfu sér hef ég alla tíð verið hlynntur því að menn hafi þarna aðgang og ég hef oft orðað það þannig, virðulegi forseti, að þetta sé ákveðin aðferðafræði til þess að tappa þrýstingnum af kerfinu. Það hefur verið mín skoðun. En þá verðum við líka að hugsa málið til enda. Það er ekki nóg að leyfa bátunum að fjölga og fjölga og ætla síðan að bæta við kvótann og bregðast svo við því einhvern veginn seinna þegar allt er sprungið í loft upp. Menn verða að hugsa þetta til enda og taka umræðuna miklu dýpra en við gerum oft hér.

Síðan langar mig líka að koma inn á það að þegar menn voru að tala um byggðakvótann og hæstv. sjávarútvegsráðherra sagði, bæði á framboðsfundum og eins þegar hann var að kynna frumvarpið, að það væru mjög miklar deilur um byggðakvótann og það væri óréttlátt kerfi, það væri miklu skynsamlegra að færa veiðiréttinn, eins og hann orðaði það, aftur til byggðanna — það er ákveðið sjónarmið — og taka frekar byggðakvótann út og þessi byggðarlög gætu þá komið inn. Síðan er reyndin þessi, hvað gerist? Byggðakvóta er aftur að úthlutað, 4.000 tonnum, og þessu til viðbótar. Það er nákvæmlega það sem maður hélt að yrði gert. Þegar kemur einhver mótspyrna verður fólk líka að standa í lappirnar Það er það sem gerist og það er það sem verður að gera.

Mig langar aðeins að rifja upp vegna þess að við erum svo oft að ræða aukaatriðin. Ég hefði frekar viljað ræða hér samsetningu byggðakvóta, herra forseti. Hvernig er samsetning á byggðakvóta? Hún er þannig að þar eru fjórar tegundir, þorskur, ýsa, ufsi og steinbítur. Það eru nokkuð mörg ár síðan ég hugðist fara í mál við Árna Mathiesen, sem þá var sjávarútvegsráðherra, út af þessu. Þetta segir okkur að það er vertíðarflotinn sem heldur uppi byggðarlögunum, eins og t.d. vestur á Snæfellsnesi, ásamt náttúrlega smábátunum og minni trollbátum í Grundarfirði og víðar, þessir aðilar sem eru í atvinnu allt árið halda uppi byggðarlögunum. Þá gerist það að menn sem eru eingöngu með heimildir úthlutað, eins og t.d. bátar í smábátakerfinu, vertíðarbátar, þurfa að láta af sínum heimildum miklu meira magn inn í svokallaðan byggðakvóta heldur en þeir sem eru með karfa eða annað, þeir þurfa ekki að láta neitt. Þannig að ef menn skoða þetta hjá útgerðunum, eins og minni krókaaflamarksbáta eða hefðbundna vertíðarbáta voru, þá voru menn þar að láta mjög stóran hluta af heimildum sínum í þetta, alla þessa potta, byggðakvótann, rækjubætur, línuívilnun og þar fram eftir götunum. Þeir voru kannski að fá 8% skerðingu á meðan t.d. stórútgerð í Hafnarfirði var að láta 0,8%. Ég hefði frekar viljað að við værum að ræða hér um að rétta þessa hluti af, að allir sem eiga að setja inn í þessa potta settu jafnt, jafnmikið í ígildum hver og einn, þannig að þessi mismunun væri ekki í gangi. Síðan komum við aftur að strandveiðunum og þá er bara tekinn þorskur og þeir sem eru með karfakvótann og uppsjávarskipin setja ekkert inn í þessa potta. Það er alltaf tekið af sama flotanum og það gerist með þeim hætti, virðulegi forseti, að það fjarar hægt og bítandi undan þessum útgerðum.

Við verðum líka að átta okkur á því að til að mynda bátur sem gerir núna út á línu — þetta eru 3% af heildaraflanum í þorski þessi 6.000 tonn — getur róið upp undir þrjár vikur til mánuð til viðbótar með tíu menn í vinnu og sú útgerð, og þær eru fleiri en ein, verður núna að láta níu menn fara heim á atvinnuleysisbætur og láta einn róa á strandveiðum. Það er ekki bæði haldið og sleppt. Þess vegna finnst mér, virðulegi forseti, að við verðum að ræða þessi mál í samhengi. Það er ekki allt bara klippt og skorið í þessum hlutum.

Síðan kemur fram, virðulegi forseti, að það er ákveðið að veiða megi 650 ígildi. Ég held að það sé mjög góð breyting miðað við það sem var vegna þess að þetta var í kílóum. Nú breytist þetta í ígildi, þ.e. ufsinn er helmingi minna ígildi en þorskurinn, þannig að menn geta hugsanlega fengið svipuð verðmæti, af því að það voru brögð að því og það geta menn fengið staðfest, og ég hef fengið það staðfest frá mönnum sem vinna á markaðnum og víðar, að aflasamsetning milli bátanna sem voru á strandveiðunum og hinna var mismunandi. Þegar vel fiskaðist og menn fengu stóran og góðan fisk þurftu þeir ekki að hanga með ufsann um borð og þar fram eftir götunum. Það vantar hins vegar að það komi fram í frumvarpinu, ég gat ekki séð það, hvort þetta er óslægt eða slægt, þ.e. það sem er miðað við þessi 650 ígildi, en ég ítreka það að ég tel að þessi breyting sé til batnaðar að breyta þessu í ígildi úr kílóum.

Nú er sagt að umframaflinn sem kemur fram yfir, þ.e. ef menn fara yfir 650 ígildi, fari í jöfnu hlutfalli við þann afla sem menn landa sem gerir það að verkum, og ég bið hv. sjávarútvegsnefnd að skoða það, að menn munu enn verða dálítið fastir í þessari gildru, þ.e. hættan er sú að ef menn veiða 650 ígildi og halda að þeir séu komnir með 680 ígildi, reyna þeir að henda frá sér 30 ígildum í ufsa, þannig að það er ákveðinn hvati í því að losa sig frekar við ufsann en þorskinn. Ég held að þá væri, af því að það er að sumu leyti oft erfitt að áætla hvort maður er með 840, 860 eða 870 kíló, hugsanlega skynsamlegra að láta t.d. fiskmarkaðina greiða sektina beint inn í ríkissjóð og taka hugsanlega bara af ódýrari tegundum eða eitthvað svoleiðis, þannig að menn hefðu það aðhald sem þarna þyrfti til að bregðast við þessum þáttum.

Að lokum, virðulegi forseti, vil ég segja það að ég hef alla tíð verið hlynntur því að menn hefðu ákveðinn aðgang í gegnum handfæraveiðar, en menn verða að hugsa málið til enda og skoða fortíðina líka, því að það voru þeir menn sem stunduðu handfæraveiðarnar á sínum tíma sem einir börðust fyrir því að það kerfi yrði lagt niður. Og að lokum segi ég það, virðulegi forseti, að ég vænti þess að hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd fari vandlega yfir þetta mál og geri hugsanlega breytingar á því milli umræðna.