138. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

370. mál
[17:58]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Illuga Gunnarssyni fyrir fyrirspurnina. Það er alveg rétt að við framsóknarmenn höfum gengið mjög langt í því að vilja tryggja eignarrétt þjóðarinnar með sérstöku ákvæði í stjórnarskránni. Fyrirspurn hv. þingmanns lýtur að því hvort það megi hugsa sér að hægt sé að koma einhverjum öðrum orðum að þeirri hugsun sem ég býst við að við séum sammála um. Ég gef mér það þó að þrátt fyrir að hv. þingmaður hafi ekki notað orðið nýtingarréttur þá sé það kannski það hugtak sem við erum að tala um. Það er eðlilegt að ríkisvaldið fari með það hlutverk fyrir hönd þjóðarinnar þó að ég vilji reyndar gera greinarmun á því hvernig ríkisvaldið fer með einhvern eignarhlut þjóðarinnar því að ríkisvaldið er auðvitað kosið til þess og er ákveðið framkvæmdarvald og er auðvitað ákveðið framkvæmdarvald og er ekki endilega besti aðilinn til að fara með eign þjóðarinnar í öllum málum.

Mér finnst koma vel til greina að menn setjist niður og reyni að finna sátt um þetta. Ég veit að hjá ýmsum aðilum innan sjávarútvegsins vex þeirri skoðun mjög fiskur um hrygg að það þurfi að viðurkenna það af því að eitt af því sem hefur verið ágreiningsatriði við almenningsálitið í landinu og eitt af því sem hefur verið ásteytingarsteinn um fiskveiðistjórnarkerfið er að eðlilegt sé að ríkisvaldið geti úthlutað þessum nýtingarrétti, t.d. til langs tíma, en ekki endilega ótakmarkaðs, og það sé grundvöllur þeirrar auðlindanýtingar og þá megi hugsa sér að menn komi auðlindagjöldum að með þeim hætti.

Ég er sammála þingmanninum um að slík auðlindanýting og auðlindagjöld þurfi auðvitað að vera með jafnræði ekki einungis í sjávarútvegi og landnýtingu heldur allri nýtingu sem heyrir undir eignarhald þjóðarinnar.