138. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

370. mál
[18:05]
Horfa

Atli Gíslason (Vg):

Herra forseti. Hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur gert ítarlega grein fyrir því frumvarpi sem við ræðum um strandveiðar. Ekki er miklu við það að bæta en ég vil þó koma inn í þessa umræðu. Strandveiðarnar hafa reynst kærkomin búbót, sérstaklega í minni sjávarbyggðum eins og allir hafa reynt, tilraun sem farið var af stað með og viðurkennt að læra þyrfti af þeirri reynslu sem aflað yrði. Einhverjir lærdómar hafa verið dregnir í því frumvarpi sem hér liggur fyrir og ef til vill má læra meira en ég hygg að þetta kerfi sé þannig að það sé eins og að grugga upp í glasi og svo setjist rykið þegar reynsla hefur komist á kerfið. En tilraunin tókst almennt vel, strandveiðar eru komnar til að vera, rétt eins og þær þekkjast, ef ég má segja, í Færeyjum, Noregi og víðar þar sem menn mega nýta aldagamlan rétt til að sækja sjó út frá heimahögum sínum.

Þetta er lítið magn miðað við heildarúthlutun t.d. í þorski, sáralítið magn. Það er enginn áhrifavaldur gagnvart stærri útgerðum og stærri útgerðarformum sem menn halda fram að séu hagkvæmari. Ég held ekki. Ég held að þetta geti verið áhrifavaldur á hinn veginn, þ.e. ekki áhrifavaldur gagnvart stærri vel „etableruðum“ útgerðum heldur þvert á móti aflvaki nýrra sóknarfæra og sprotareksturs í sjávarútvegi. Það er nokkuð þekkt dæmi til að mynda að kvótalausir fiskverkendur hafi fundið matarholur vegna þess að þeir hafa búið við dýrt leiguafgjald eða dýr fiskkaup. Það er afar brýnt í þessu máli að menn nýti þennan fisk eða þennan afla eins og kostur er til að skapa sóknarfæri í sjávarútvegi. Og ég held að við þurfum að leyfa fleiri kerfum að blómstra, ekki vera með einsleita stórútgerð heldur leyfa fleiri kerfum að blómstra í íslenskum sjávarútvegi. Það er mín eindregna skoðun.

Umræðan hefur verið góð að því leyti að hún hefur að nokkru leyti verið kjarnaumræða um það hvort menn séu að fara út úr kvótakerfinu og rústa það. Það eru þessi kjarnaatriði varðandi skötuselinn sem hér hafa komið fram og varðandi kvóta sem hér er tekinn til hliðar í strandveiðarnar. Þetta er kjarnaumræða og gagnleg að því leyti. En það er að mínu mati fráleitt að þessi tilraun eða þessi útgerðaraðferð sé til þess fallin að rústa núverandi kerfi útgerða og aflahlutdeildar. Það er víðs fjarri.

Það var ánægjulegt að hæstv. sjávarútvegsráðherra skyldi fela Háskólasetri Vestfjarða úttekt á þessu kerfi. Eflaust má gera fleiri úttektir í sambandi við það. Hv. þm. Illugi Gunnarsson nefndi t.d. óhagkvæmni kerfisins. Ég hefði gjarnan viljað að það hefði verið skoðað hvernig skattar skiluðu sér af því, hverju þeir skiluðu til minni sveitarfélaga. Þetta er allt skoðunarvert og það er mjög til fyrirmyndar að fela Háskólasetri Vestfjarða þessa úttekt. Ég ætla ekki að lesa upp úr þessari skýrslu en vil þó endursegja nokkur atriði eins og á bls. 44 þar sem fram kemur að gæði aflans hafi almennt verið mikil. Fiskkaupendur og forsvarsmenn fiskmarkaða taka að mestu leyti undir það. Menn hafa gagnrýnt það, m.a. frá LÍÚ, að gæði aflans hafi verið lítil. Að hluta til hefur það stafað af því að menn hafa sótt styttra á mið og verið í fiski sem meiri ormur hefur verið í, er mér sagt. En það er kappsmál smábátaútgerðarmanna sem og stærri útgerðarmanna að hámarka verðmæti aflans.

Ég veit að Samtök smábátaeigenda vinna að því af kappi með því að afhenda smábátaeigendum fræðsluefni, með því að halda námskeið og þar fram eftir götunum. Þeir hafa alveg nákvæmlega sama hvata til að koma með sem verðmætastan afla að landi, sem mest gæði til að hámarka verðið. Ég ætla ekki að gera lítið úr því sem kom fram í skýrslunni að skýrsluhöfundar telja samfélagslegt mikilvægi veiðanna mikið. Við getum ekki sem þjóð hugsað eingöngu í krónum og aurum og hagnaði. Við verðum líka að hugsa í einhverri líðan manna og samfélagsins sem fólkið býr í. Það kemur skýrt fram í skýrslunni að veiðarnar hafi verið mjög fyrirferðarmiklar í minnstu bæjarfélögunum, í minnstu sjávarbyggðunum, og þar er þá tilganginum náð, að efla líf þar. Afstaðan gagnvart strandveiðunum er hins vegar neikvæðari í stærri sveitarfélögum eða stærri sjávarbyggðum þar sem kvótinn er mestur.

Menn segja að veiðarnar hafi gengið vel. Þeir sem tóku þátt í veiðunum og höfðu vel að merkja afskipti af þeim — það voru fjölmargir sem hafa afskipti af veiðum eins og gengur og gerist — voru jákvæðir í garð veiðanna. Ánægja útgerðar er auðvitað mikil og þeir vilja sjá þetta sem framtíðarskipulag. Það er að mínu mati ekki verið að kollvarpa núverandi fyrirkomulagi eins og ég hef sagt og það er sagt í niðurstöðum skýrslunnar að þeim markmiðum sem lýst var í frumvarpinu sem samþykkt var í fyrrasumar hafi verið náð að mörgu leyti, með þeim fyrirvara þó að markmiðin hafi ekki verið nægilega skýr og sett fram með ákveðnum viðmiðum. En þeir segja að veiðarnar hafi einnig náð yfirlýstum markmiðum fiskveiðistjórnar. Það er dálítið merkilegt innlegg í þessari skýrslu, hafi ekki gengið í berhögg við fiskveiðistjórnarkerfið, það er ein niðurstaðan, almennt ekki. Og að þær hafi náð að hleypa lífi í minni sjávarbyggðir landsins eins og ég hef áður sagt, byggðasjónarmiðin hafi náðst. Í niðurlagi skýrslunnar segir að það sé augljós niðurstaða að almenn ánægja sé meðal þátttakenda og hagsmunaaðila með veiðarnar. Hagsmunaaðilar hljóta líka að vera bæði fiskkaupendur og verkendur. Niðurstaðan er góð, hún gat orðið önnur vegna þess að hér var um tilraun að ræða. Tilraunin hefur tekist, ekki gallalaust en þá agnúa verðum við að skera af. Ég held að kerfið sem slíkt jafni sig og það er ekki komið til að taka af núverandi kerfi.

Hv. þm. Illugi Gunnarsson — og ég nefndi það áðan — talaði um hagkvæmni og að kostnaður væri meiri. Það finnst mér athyglisverð umræða og hana vildi ég skoða og taka betur. Það eru mótrök gegn þeim sjónarmiðum hv. þm. Illuga Gunnarssonar að smábátarnir eyða almennt minna, það er minna umfang. Einyrkjarnir eru almennt ódýrari í rekstri. Það er minna í kringum þetta. Útgerðin er sveigjanlegri og margt fleira. Það er þannig erlendis að menn hugleiða varðandi fiskveiðistjórn og varðandi vistvænar og sjálfbærar veiðar að taka upp gulrótarkerfi í veiðunum, þ.e. að bátar sem eyði minna fái ívilnun rétt eins og línuívilnun. Bátum sem veiða á veiðarfæri sem eru ekki dregin er ívilnað á svæði sem eru í hættu og þar fram eftir götunum. Þetta er kölluð einhvers konar græn stjórnun og græn hvatakeppni. Það megum við alveg hugleiða. Ég get sett ýmis spurningarmerki við hagkvæmni stórútgerðar, skuttogara sem eru með gríðarlegt vélarafl, eru gríðarlega orkufrekir. Orkunotkun á kíló er margfalt meiri en á öðrum bátum. Það þurfum við líka að skoða, sérstaklega í ljósi þróunar á orkuverði í heiminum. Allt þetta verðum við að skoða mjög nákvæmlega.

Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson vitnaði í skýrslu háskólasetursins — í tilvitnunina „hófst með látum“ — og auðvitað er það hárrétt, ekki verður horft fram hjá því. Af hverju skyldi að vera? Maður veltir því fyrir sér. Var þetta ekki langþráð tilraun sem hafði verið beðið með mikilli óþreyju, eftirvæntingu og ánægju um áraraðir? Sinnti hún ekki brýnni þörf? Brýnni þörf þess sem hefur búið við sjávarbyggð mann fram af manni frá örófi alda þar sem forfeður hafa veitt í aldaraðir, að sitja svo heima við sjávarströndina og mega ekki róa, mega ekki sækja fisk sem forfeður hafa sótt alla ævi, sótt þá björg sem liggur rétt fyrir utan heimabyggðina. Ég held líka að menn hafi með þessu verið að svala ákveðinni frelsisþörf og ákveðinni þörf einstaklingsins til að fá útrás fyrir vinnugleði sína og framkvæmdagleði og fá að gera það sem forfeðurnir gerðu mann fram af manni frá þessum litlu sjávarþorpum, sem eiga það flest sammerkt að hafa á grundvelli hagkvæmniskvótakerfis og framsals heimilda misst aflaheimildir. Um þetta verðum við að hugsa. Í þessum litlu sjávarbyggðum liggja líka gríðarleg verðmæti, í húsum og sérstaklega í fólki og framleiðslutækni. Og af því að ég nefndi hv. þm. Illuga Gunnarsson og kostnað þá kom hæstv. sjávarútvegsráðherra að því að þeim bátum, tækjum og tólum sem notuð voru til strandveiðanna fylgdi ekki fjárfestingarkostnaður nema að einhverju litlu leyti miðað við heildarverðmæti þeirra framleiðslutækja og veiðarfæra sem fóru í þessar veiðar. En það er auðvitað verkefni sem er skoðunarvert, að skoða þetta og skoða þetta heildstætt, hagkvæmni sjávarútvegs í dag. Getum við aukið hana? Erum við alveg viss um að þessar strandveiðar séu svo óhagkvæmar þegar á heildina er litið? Allt þetta vildi ég skoða. Varðandi þetta kapphlaup líka og ólympískar veiðar ítreka ég að miklar takmarkanir eru á þessum veiðum, bæði heildarafla í dögum og þar fram eftir götunum.

Ég horfi sem sé afar jákvætt á málið og það gera landsmenn í yfirgnæfandi meiri hluta. Ég vonast til að þessi jákvæðni einkenni faglega og ítarlega yfirferð hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar.