138. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

370. mál
[18:21]
Horfa

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Aðalatriði fiskveiðistjórnar er hversu mikið er veitt og hvaða reglur menn setja og hvort menn horfa til þeirra vísindamanna sem meta stofnstærð og hafa gert með ákveðnum hætti. Þessum takmörkuðu gæðum sem ég vona að aukist með árunum er hægt að útdeila með ýmsu móti og öðru en akkúrat núverandi kvótakerfi, hlutdeildarkerfi. Við Vinstri hreyfingin – grænt framboð höfum lagt upp með í okkar stefnu, og ég er stoltur af mínum flokki að því leyti, ítarlega stefnumörkun í fiskveiðistjórnarmálum þar sem miklu meira er undir en eingöngu sjálft kvótakerfið. Við tölum þar um fjöldamarga aðra hluti, vistvænar veiðar, orkusparnað í sjávarútvegi og fleira. Ég minni á að fiskveiðistjórnarlögin mæla fyrir um ein fjögur markmið og er eitt þeirra hagkvæmni. Ég hygg að það hafi náðst að mörgu leyti en önnur atriði eins og það að efla byggð í landinu með framsalsheimildum og fleiru hafi misfarist hrapallega á ýmsum stöðum.

Ég er heldur ekki viss um að þessar veiðar séu endilega hagkvæmar og ég spái því að í framtíðinni muni stórútgerðir fjölga bátum sínum og vera með minni báta og sóknin verði allt öðruvísi. Að vernda og efla fiskstofna er aðalatriðið og það er hægt að gera það með ýmsum kerfum. Mér tekst ekki að svara þessu með skötuselinn en mun gera það, herra forseti, í næsta andsvari.