138. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

370. mál
[18:25]
Horfa

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Auðvitað ber ég og hef alltaf borið mikla virðingu fyrir sjávarútvegi og þeim sem stunda sjó og fiskvinnslu í landi og þar fram eftir götunum. Við höfum sett á stofn sáttanefnd til að leita viðmiða sem hægt verður að leggja fyrir þing og þjóð um þátt í þessu kerfi. Ég hefði kosið að menn kæmu úr þeim skotgröfum sem þeir hafa verið í í kerfinu til þessa, en þær hafa verið grafnar talsvert dýpra nú síðustu mánuði en ég átti nokkurn tímann von á. Sköpum sátt um kerfið, það eru á því agnúar og líka stórir gallar, það viðurkenna allir.

Síðan hafa menn snúið út úr með fyrningarleiðina, sem ég kalla ekki fyrningarleið heldur innköllun og endurúthlutun, eins og ekkert verði veitt eftir 20 ár. Það er alrangt. Það stendur til endurúthlutun. Við höfum lagt fram tillögur og ég hef sagt að ég muni ekki standa að einhverri tillögu sem leggur sjávarbyggðir á landsbyggðinni í eyði. Ég hef lýst því yfir til að mynda í Vestmannaeyjum á fundi með útgerðarmönnum þar. Það er mín bjargfasta skoðun. Ég vil ná sátt og ég vil sníða agnúa af þessu og ég vil ná öðrum markmiðum fiskveiðistjórnarkerfisins líka, ekki bara meintum hagkvæmnissjónarmiðum. Ég hélt því fram í fyrri ræðu minni að það sem hefur helst náðst í þessu er hagkvæmni og það er ekki endilega fiskveiðistjórnarkerfið eða kvótakerfið sem hefur leitt til þess heldur hafa fyrirtækin að mörgu leyti tekið markaði í sínar hendur og sinna markaðsmálum miklu betur í dag en gert var fyrir 10–12 árum síðan. Það er svolítill kjarni í þessari hagkvæmni en ekki fiskveiðistjórnarkerfið sem slíkt.