138. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

370. mál
[18:27]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu og ég get tekið undir margt í henni. Hv. þingmaður kom inn á það í andsvari sínu að hann vildi skoða þá agnúa sem væru á kerfinu. Að mínu mati er einn agnúi á kerfinu og það er að við erum með svokallaða byggðapotta við úthlutun byggðakvóta, við úthlutum rækjubótum þar sem rækju brestur í Ísafjarðardjúpi, Húnaflóa, Eldey og svo fram eftir götunum, og inn í þessar bætur verða einungis teknar fjórar fisktegundir, þ.e. þorskur, ýsa, ufsi og steinbítur. Við þær breytingar sem nú eru að verða á strandveiðunum, þar sem 6.000 tonn af þorski eru tekin í úthlutunum og látin í strandveiðarnar, þá skekkjast þeir hlutir enn frekar.

Því vil ég spyrja hv. þingmann, sem er formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar hvort hann er tilbúinn til að skoða það að þegar menn úthluta inn í þessa potta láti allir jafnmörg ígildi inn í pottana. Þ.e. að stórútgerðin sem er t.d. með rækjuna, loðnuna, síldina og þar fram eftir götunum gæti sett ígildi í þessa potta þannig að þegar áföll verða í sumum byggðarlögum, eins og þegar verður brestur og skelin í Stykkishólmi er dæmi um slíkt, fái menn byggðakvóta. Mér hefur alltaf fundist dálítið óréttlátt að eingöngu þessar fjórar fisktegundir séu notaðar og nú hallar enn frekar á þær vegna þess að í strandveiðunum er einungis þorskur og eitthvað pínulítið af ufsa. Er hv. þm. Atli Gíslason, formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, tilbúinn til að skoða það að breyta þessum hlutum þannig að allir setji jafnt inn í pottana til að rétta af þau samfélög sem verða fyrir þessum áföllum?