138. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

370. mál
[18:31]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni, ég er líka þeirrar skoðunar að sjávarútvegsstefnan eigi að tryggja byggð í öllu landinu, það er alveg hárrétt. Núna er þetta þannig að t.d. hefðbundinn vertíðarbátur eða krókaaflamarksbátur þarf að láta kannski upp undir 10% af þorskveiðiheimildunum sínum inn í þessa potta á meðan stórútgerðin sem veiðir uppsjávarfiskinn er líka með aðrar heimildir sem hún getur látið af hendi. Ég geri mér alveg grein fyrir því að menn muni ekki úthluta loðnu inn í byggðakvóta, en þeir hafa svigrúm til að láta aðrar heimildir af hendi þannig að allir setji bara það sama inn í þessa potta. Ég er þeirrar skoðunar að við verðum að hafa einhvers konar stýritæki ef menn og byggðarlög lenda í vandamálum. Það er mín skoðun og hefur alla tíð verið þó að það sé margt athugavert við það hvernig byggðakvótunum er úthlutað í sjálfu sér. Tíminn leyfir ekki að við förum í þá umræðu.

Seinna atriðið sem ég vil nefna við hv. þingmann er það sem hann kom inn á í ræðu sinni um að Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefði lagt fram sjálfbæra stefnu í fiskveiðum. Það er allt gott um það að segja, en ég kom líka í ræðu minni áðan inn á svæðaskiptinguna. Miðað við þá reynslu sem við höfum frá síðasta ári finnst mér hún algjörlega hafa misheppnast. Getur hv. þingmaður tekið undir það og er hann tilbúinn að skoða það? Hugsunin með svæðaskiptingunni er að menn geti þá dreift þessu inn á einhver svæði og tryggt að, eins og ég sagði, suðursvæðið klári ekki allan aflann af norðursvæðinu og þar fram eftir götunum. Við getum skipt þessu niður á mánuði sem er ætlunin að gera. Hvað finnst hv. þingmanni t.d. um að lengja bara tímann fyrir þá staði sem liggja óhentugir að miðunum? Á Snæfellsnesi hentar t.d. mjög vel á utanverðu nesinu og menn sem róa þar þurfa yfirleitt ekki nema helminginn af þessum tíma eða kannski tvo þriðju. Gæti það hugsanlega að mati hv. þingmanns dekkað þá kröfu að allir sitji við sama borð? Ef menn hafa rýmri tíma geta þeir líka siglt hægar og eytt minni olíu því að síðasta mílan kostar alltaf 50% meiri olíu. Það er líka jákvætt að því leyti til.