138. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

370. mál
[18:33]
Horfa

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Jafnræðisregla stjórnarskrárinnar hefur alltaf verið mér hugstæð og ég vil að menn sitji við sama borð. Ég mun skoða tillögur um það sem hv. þingmaður gerði að umtalsefni í fyrra skiptið. Síðan heldur hv. þingmaður því hér fram að svæðaskiptingin hafi misheppnast. Ég hef ekki skoðað það í þaula en gagnstæð sjónarmið hafa komið fram. Ég veit að skýringin á þessari svæðaskiptingu á sínum tíma var að hluta til sú í fyrrasumar að hluti byggðakvótans var tekinn upp í þetta og svæðaskiptingin var sett upp til að tryggja að byggðakvótinn færi þá aftur inn á svæði A eða B eða C eða D. Þannig var mönnum með vissum hætti bættur þessi missir byggðakvóta.

Ég er ekki mikill talsmaður þess að lengja róðrartímann í dag, menn þurfa að hugsa um hvíld og annað slíkt. Það er e.t.v. hægt að hugsa sér að stytta hann líka ef menn eru mjög nærri miðum. Ég er tilbúinn að skoða þetta, ef þetta er agnúi á kerfinu er ég tilbúinn að skoða hann í þaula og fara yfir kerfið. Ég vænti þess að það verði gert í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd á næstu dögum og vikum.