138. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

370. mál
[18:54]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir áhugaverð skoðanaskipti um þetta mál og hlakka til að fá sjávarútvegsstefnu Vinstri grænna senda á silfurfati svo maður fái eitthvað meira til að glugga í. Ég átta mig á því að þetta er síðasta svarið í þessari andsvaralotu þannig að ég get ekki ítrekað enn spurninguna um Suðurkjördæmið til hv. þingmanns. Ég vonast til að það komist þá bara á framfæri á einhverjum öðrum vettvangi.

Ég vil ljúka máli mínu hér með því að ítreka að við eigum samfélag sem státar af sterkum sjávarútvegi. Við stundum hér sjálfbærar veiðar á grundvelli þess fiskveiðistjórnarkerfis sem okkur hefur auðnast að búa til til að halda utan um þessa stærstu og öflugustu atvinnugrein okkar sem er grunnstoðin í samfélagi okkar og skapar gríðarlega miklar gjaldeyristekjur. Þessi grein, sem þiggur ekki ríkisstyrki, skapar örugga atvinnu fyrir fjölda manns og þykir það víðast hvar um heiminn öfundsvert. Ég tel enga ástæðu til að vera í þeirri vegferð núna, herra forseti, að kollvarpa þessu kerfi. Við skulum enn og aftur, ég ítreka orð mín, vera stolt af því sem við eigum og ekki rugga bátum sem ganga vel.