138. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2010.

veiðieftirlitsgjald.

371. mál
[19:06]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi á þskj. 668, mál 371, frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 33/2000, um veiðieftirlitsgjald, með síðari breytingum. Þetta mál er nátengt og í rauninni hluti af því frumvarpi sem við ræddum hér áðan um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða sem laut að strandveiðunum, þannig að efnislega eru þessi frumvörp samferða.

Með þessu frumvarpi er lagt til að aðilar sem fá úthlutað leyfi til strandveiða greiði sérstakt strandveiðigjald að upphæð 50.000 kr. sem komi til viðbótar almennu gjaldi til leyfis við strandveiðar. Gert er ráð fyrir að tekjur af strandveiðigjaldinu renni til þeirra hafna landsins þar sem afla sem fenginn er við strandveiðar hefur verið landað. Fiskistofa innheimtir gjaldið og skal hún á grundvelli aflaupplýsinga greiða höfnum þeirra hlut eftir lok veiðitímabilsins. Hlutfall þeirra hafna skal vera það sama og hlutfall þeirra í heildarafla sem fenginn var við strandveiðar og landað hjá viðkomandi höfnum á tímabilinu. Skal aflinn reiknaður í þorskígildum. Samkvæmt skráningu Fiskistofu voru 595 leyfi til strandveiða gefin út á síðasta fiskveiðiári og var afla strandveiðiflotans landað í 55 höfnum. Á þeim tíma sem strandveiðar eru stundaðar þurfa starfsmenn hafnanna, sérstaklega smærri hafna, að vera viðbúnir aukinni umsýslu sem fylgir strandveiðum og þykir því rétt að koma til móts við hafnir hvað þetta varðar með því að láta gjaldið renna til þeirra.

Verði fjöldi leyfa til strandveiða á yfirstandandi ári svipaður og á því síðasta, á bilinu 460–600 leyfi, má gera ráð fyrir að tekjur af strandveiðigjaldinu nemi 20–30 millj. kr., sem verða greiddar til hafnanna eftir lok veiðitímabilsins og bæta fjárhagsstöðu þeirra, en eins og kunnugt er eiga mjög margar minni hafnir við verulega rekstrarerfiðleika að stríða.

Þetta er inntak þessa frumvarps, herra forseti.

Ég vil nota tækifærið og víkja að þeim atriðum sem hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson kom að varðandi þetta mál sem við ræddum hér um stjórn fiskveiða og tengist þessu máli, sem við ræddum hér áðan, um óunninn afla og það að hv. þingmaður veit hverjar áherslur mínar í þeim efnum eru. Það er ekki gert ráð fyrir því að liðka fyrir útflutningi á óunnum afla eða gámafiski. Ef það er eitthvað sem þarf að kveða skýrar á um í þeim frumvörpum sem hér eru treysti ég sjávarútvegsnefnd til að skoða það líkt og aðra þætti í þeim frumvörpum sem hér eru lögð fram.

Af því að hv. þingmaður minntist á svokallað gámaálag, vil ég vekja athygli á því að það lýtur fyrst og fremst að þeim fiski og þeim höfnum þar sem ekki er um þá samræmdu vigtunaraðferð að ræða sem annars er gert ráð fyrir og ef ekki er hægt að vigta með þeim hætti er heimilt að leggja gámaálag á, en það kemur nú þessu máli kannski ekki mikið við.

Ég vildi bara nefna þetta, herra forseti. En eins og ég segi þá treysti ég hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd til að fara nánar í þau atriði sem hér er um að ræða og ef það eru einhver atriði sem betur mega fara í þessu frumvarpi, þá treysti ég hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd fyrir því. Ég legg sem sagt til að málinu verði vísað til hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar að lokinni þessari umræðu.