138. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2010.

veiðieftirlitsgjald.

371. mál
[19:18]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi spurningu hv. þingmanns um þessar 50.000 kr. er eins og hv. þingmaður kom inn á hægt að líta á þetta sem skatt þó að hann sé sérmerktur til að styrkja stöðu byggðanna og hafnanna þarna. Það er alveg hárrétt. Samkvæmt lögum eru strandveiðarnar háðar sérstöku leyfi Fiskistofu og borga það leyfisgjald sem mig minnir að hafi verið 17.500 kr. á síðasta ári. Það er síðan haldið sérstaklega utan um þetta.

Að öðru leyti treysti ég bara hv. nefnd sem hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson á sæti í til að fara yfir þau atriði sem hann nefndi og geta þurft frekari skoðunar við. Ég veit að hv. þingmaður er vel kunnugur þessum málum og leggur það inn í umræðuna sem gæti horft þessu máli til framdráttar. Ég fel hér með hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd málið og óska eftir að þingið afgreiði það til nefndarinnar.