138. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2010.

veiðieftirlitsgjald.

371. mál
[19:19]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst við vera að verða vitni að þó nokkrum tíðindum í umræðu um þetta litla mál. Ég hafði satt að segja ekki gert mér grein fyrir því að við værum að ræða nýtt skattalagafrumvarp, en nú hefur komið fram hjá hæstv. ráðherra að svo sé. Það kom greinilega fram hér. Svarið er að hér er verið að leggja á skip nýjan skatt, 50.000 kr. nefskatt — við getum kallað hann það — til viðbótar við aflagjald og önnur þau gjöld sem höfnum er heimilt að innheimta til að standa undir lögbundinni skilgreindri þjónustu. Það eru væntanlega hin eiginlegu þjónustugjöld sem eru síðan til viðbótar þannig að hér liggur þá fyrir að verið er að leggja á nýjan skatt. Þetta er nýr skattstofn fyrir hafnirnar sem væntanlega helgast af einhverjum kostnaði sem menn ætla að hafi orðið til í höfnunum.

Til viðbótar þessu hefur hæstv. ráðherra upplýst að það eru önnur gjöld sem menn greiða, til að mynda til Fiskistofu og Siglingastofnunar geri ég ráð fyrir til að fá haffærisskírteini á bátana, og fá síðan veiðileyfi á þá. Ég held að það hljóti að bíða okkar þegar þetta litla frumvarp kemur inn í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd að átta okkur á því í hverju þessi gjaldtaka öll er fólgin. Ég vek athygli á að þessi óvænta skattamálaumræða hérna segir okkur að nú hafi verið ákveðið að leggja á sérstakan 30 millj. kr. skatt sem hafnirnar í landinu eigi að njóta. Þar með er það upplýst.