138. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2010.

störf þingsins.

[13:42]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Ég kveð mér hljóðs til að taka þátt í þeim umræðum sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson vakti máls á. Í framhaldi af svörum hv. þm. Ögmundar Jónassonar um það mál sem þeir ræddu sem er aðildarumsókn Íslands til Evrópusambandsins vil ég fá að beina nokkrum spurningum til hv. þingmanns.

Ég hef verið mjög hugsi yfir því hvers konar forgangsröðun á sér stað í þessu samfélagi núna þegar við eigum við að glíma margs konar vandamál og ekki síst að tryggja almannaþjónustu á þeim tímum sem fjármunir eru naumt skammtaðir eftir þá erfiðleika sem við höfum orðið fyrir. Þess vegna finnst mér spurningin um pólitíska forgangsröðun vera mjög mikilvæg um þessar mundir og eitthvað sem við þurfum alltaf að velta fyrir okkur. Ég velti fyrir mér og vil spyrja hv. þingmann — sem svo einlæglega sagði áðan að ánægja hans vegna stöðu mála gagnvart Evrópusambandsumsókninni væri innan viðráðanlegra marka og hann væri sem aldrei fyrr andvígur þessari umsókn og ég tel að kannanir sýni að svo er farið um okkur fleiri — vill hv. þingmaður fá úr því skorið meðal íslensku þjóðarinnar hvað sem það kostar um þessar mundir þegar skera þarf niður í heilbrigðiskerfinu og menntakerfinu og þegar loka þarf skurðstofum víða um land — vill hann þá eyða 1.000 millj. kr. í það minnsta í þessa umsókn? Ég vek athygli á því að í kostnaðarumsókn fjármálaráðuneytisins með umsögnum sem við ræddum í sumar var talað um að þessi 1.000 millj. kr. fjárhagsáætlun væri í besta falli (Forseti hringir.) háð miklum vafa og færi eftir því hversu vel við færum í aðildarviðræðurnar, sem ég treysti að hv. þingmaður vilji þá gera almennilega. Er þetta það mikilvægasta, (Forseti hringir.) að verja takmörkuðum fjármunum ríkissjóðs einmitt um þessar mundir? (Forseti hringir.) Er allt til þess vinnandi að fá úr þessu skorið?