138. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2010.

störf þingsins.

[13:44]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég ætla að blanda mér aðeins í þá umræðu sem hér hefur hafist m.a. um umsókn Íslands að Evrópusambandinu. Ég vil fyrst segja hins vegar í framhaldi af ræðu hv. þm. Skúla Helgasonar að ég tel að þær spurningar sem hann reifaði þar séu mjög mikilsverðar og mjög brýnt að Alþingi og stjórnmálalífið allt taki á þeim með þeim hætti sem hann lagði til og ræddi.

Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson upplýsti að frá því hefði verið greint að framkvæmdastjóri Evrópusambandsins ætlaði að mæla með því að viðræður hæfust við Ísland um aðild að Evrópusambandinu. Þetta getur varla komið hv. þingmanni mjög á óvart. Það var samþykkt í júlí sl. á Alþingi að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Það var ákvörðun Alþingis, tillaga sem kom inn í þingið þar að lútandi. Það var ljóst af hálfu stjórnarflokkanna beggja að skiptar skoðanir væru milli þeirra um afstöðu til Evrópusambandsins en menn voru sammála um að leggja fram tillögu þar að lútandi og að meiri hluti Alþingis tæki ákvörðun um framhaldið. Þar var ákveðið og samþykkt að fara í ákveðið ferli. Ég studdi það með nákvæmlega sömu rökum og hv. þm. Ögmundur Jónasson. Ég tel mikilvægt að þetta umræðuferli fari í gang, viðræður fari fram við Evrópusambandið og þjóðin taki ákvörðun á grundvelli þess sem út úr því kemur. Það þýðir ekki endilega að þeir sem styðja að það ferli eigi sér stað séu stuðningsmenn aðildar að Evrópusambandinu. Það er ekki sjálfkrafa þannig. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að í þeirri stöðu sem við Íslendingar erum í dag eigum við að leyfa okkur að fara í endurmat á öllum málasviðum. Við höfum verið að tala um fjármálamarkaðinn og velferðarþjónustuna og það getur alveg eins átt við um aðild að Evrópusambandinu. Ég er alveg reiðubúinn til að fara í skoðun á því þegar viðræðum við Evrópusambandið lýkur hvort hagsmunum okkar yrði betur borgið með því að fara þar inn en ég er ekki þeirrar skoðunar í dag. Við eigum að (Forseti hringir.) leyfa okkur við þær aðstæður sem núna eru að taka allt til endurmats og spyrja okkur grundvallarspurninga: Hvert stefnum við? Hvert ætlum við?