138. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2010.

aðildarviðræður við ESB -- skuldaaðlögun fyrirtækja -- stjórnsýsluúttektir.

[13:49]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég hef mikinn skilning á því að það sé erfitt fyrir hv. þm. Ögmund Jónasson, einn af ábyrgðarmönnum ESB-umsóknarinnar, að hafa taumhald á tilfinningum sínum þegar svona stórir atburðir eru gerast eins og þeir að framkvæmdarstjórnin ætli að mæla með aðildarumsókninni. En ég fagna því hins vegar að þessi gleðilæti hans eru innan allra viðráðanlegra og skikkanlegra marka.

Hv. þingmaður sagði áðan að þetta ESB-mál væri eins konar skrúfa á þjóðinni sem væri að forskrúfast. En þetta er ekki bara skrúfa á þjóðinni, þetta er líka skrúfa á ríkisstjórnina og ríkisstjórnarsamstarfið og þar er ekki um neina forskrúfun að ræða. Þar sýnist mér nefnilega að skrúfgangurinn sé í fínu lagi og allt gengur eins og til er ætlast. Evrópusambandsaðildin heldur áfram og menn keyra þetta áfram eins og ekkert hafi í skorist og geta ekki dulið gleði sína í fjölmiðlum eins og hæstv. forsætisráðherra í gær.

Það er ekki þannig að hér sé um að ræða einhvers konar umræðuferli eins og hv. þm. Árni Þór Sigurðsson sagði áðan, það er óskaplega sakleysislegt orð og gefur til kynna að menn setjist nú niður og ræði málið kannski yfir kaffisopa eða tebolla eða einhverju slíku. Þetta er miklu meira. Umræðuferlið svokallaða felur t.d. það í sér að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið kynnti á dögunum 146 blaðsíðna skýrslu bara um landbúnaðinn sem fyrstu svör við spurningum ESB. Þetta er umræðuferlið. Stjórnsýslan okkar er undirlögð af því að svara þessum stóru spurningum og hér er ekki um að ræða nein einföld svör við einföldum spurningum. Hér er um að ræða stórkostlegar ritgerðir í hverjum málaflokknum á fætur öðrum. Hér er ég að tala um afmarkaðan þátt í einu ráðuneyti og þá eru öll hin ráðuneytin eftir. Það er alveg ljóst mál að stjórnsýslan okkar er undirlögð í þessu umræðuferli af því að vinna að málefnum sem snúa að umsókn okkar að Evrópusambandinu í boði hv. þm. Ögmundar Jónassonar (Forseti hringir.) og það verður ekki annað gert á meðan. Það skýrir auðvitað verkleysi ríkisstjórnarinnar hvað margt varðar.