138. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2010.

aðildarviðræður við ESB -- skuldaaðlögun fyrirtækja -- stjórnsýsluúttektir.

[13:58]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tók eftir því í upphafi þessarar umræðu frá hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni að hann er mjög óttasleginn gagnvart Evrópusambandinu, eins og við höfum auðvitað oft heyrt, og sama kom fram hjá hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni. Ég fagna með hæstv. forsætisráðherra því að við séum að verða fullgilt aðildarumsóknarríki, það verður mikil og stór stund þegar það gerist. Sú aðildarumsókn sem er inni og verður samþykkt núna á næstunni, sem betur fer, er m.a. studd af hv. Guðmundi Steingrímssyni og Siv Friðleifsdóttur sem bæði eru þingmenn Framsóknarflokksins. Ef ég man rétt var samþykkt á landsfundi Framsóknarflokksins áður en formannskjörið (Gripið fram í.) byrjaði, að styðja aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Framsóknarflokkurinn er nefnilega töluvert mikill Evrópuflokkur þó að það séu fimm þingmenn sem hér eru sem eru andvígir, en tveir styðja aðildarumsóknina. Þessi aðildarumsókn var líka studd af einum þingmanni Sjálfstæðisflokksins, Ragnheiði Ríkharðsdóttur, og varaformaður Sjálfstæðisflokksins sat hjá, hún ætlaði öðrum að taka þessa ákvörðun.

Virðulegi forseti. Þetta er stutt af töluvert stórum hóp af framsóknarmönnum og sjálfstæðismönnum og nýlega, 12. febrúar, var stofnað félagið Sjálfstæðir Evrópumenn. Þar eru margir nafntogaðir sjálfstæðismenn: Benedikt Jóhannesson er formaður, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Halldór Halldórsson, Baldur Dýrfjörð og vafalaust fleiri. Eitt af markmiðum þessa félags er að stuðla að hagstæðum samningi um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Ég held, virðulegi forseti, að m.a. sjálfstæðismenn, sá þröngsýni hópur sem hér fyllir að hluta þingflokk sjálfstæðismanna, ætti að lesa ávarp Benedikts Jóhannessonar frá þessum stofnfundi og jafnframt lesa hvað góður forustumaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni heitinn Benediktsson, sagði (Forseti hringir.) árið 1969 um hina óttaslegnu menn sem óttast að horfa út fyrir landsteinana.

Virðulegi forseti. Þetta kom upp í huga minn, „hinir óttaslegnu menn“ þegar ég hlustaði á þá sjálfstæðismenn sem talað hafa (Forseti hringir.) um Evrópusambandið.