138. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2010.

stuðningur við atvinnulaus ungmenni.

179. mál
[14:01]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Jónína Rós Guðmundsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég sendi inn fyrirspurn um þetta aðkallandi og mikilvæga verkefni í nóvember og þá snerust spurningar mínar meira um undirbúning úrræða. Nú veit ég að margt hefur verið gert til að leysa vandann og fróðlegt er og nauðsynlegt að fá að fylgjast með framgangi málsins.

Um 3.500 ungmenni á aldrinum 16–25 ára voru nú í byrjun febrúar atvinnulaus, mörg þeirra höfðu verið það lengi og stór hluti þeirra er ekki með formlega menntun umfram grunnskólapróf. Nágrannar okkar, t.d. Finnar, hafa rætt um reynslu sína þegar svipuð staða var uppi hjá þeim fyrir nokkrum árum og harma að þeir gripu ekki til aðgerða fyrr til að koma í veg fyrir langtímaatvinnuleysi, sem samkvæmt rannsóknum, og raunar segir manni það heilbrigð skynsemi, hefur afar slævandi áhrif á fólk og erfitt getur verið fyrir þá sem í því lenda að rífa sig upp og komast í fulla virkni á ný.

Nágrannar okkar hafa því ráðlagt okkur og öðrum að vinna mjög ákveðið að því að koma fólki án atvinnu í virkni sem allra fyrst og á það ekki síst við um unga fólkið sem skortir reynslu af vinnumarkaði og hefur takmarkaða menntun. Það kemur fram í skýrslu sem unnin hefur verið um þetta mál af félagsmálaráðuneytinu og menntamálaráðuneytinu að þetta unga fólk hefur í deyfð sinni getað verið án afskipta opinberra aðila annarra en þeirra að taka við rúmlega 100 þús. kr. sem hafa rúllað inn á reikninginn þeirra um hver mánaðamót. Þann rétt hafa þessi ungmenni áunnið sér og ekkert er við það að athuga. Mér finnst sjálfsagt að þeirri fjárhæð fylgi ákveðnar skyldur og krafa um virkni, atvinnuleitandanum til hagsbóta. Ég hef þá trú að það þurfi persónulega einstaklingsmiðaða hvatningu og þjónustu við þennan viðkvæma hóp, nokkurs konar einkaþjálfun þar sem sjálfsmyndin er þjálfuð og styrkt með ýmsum tiltækum ráðum. Slíkt kann að hljóma lúxuskennt og dýrt og því illframkvæmanlegt en ég tel að þannig þurfi það alls ekki að vera. Gott fagfólk á þessu sviði getur unnið afar gott starf og þjónustað marga einstaklinga.

Það hefur sýnt sig að ekki er nóg að bjóða upp á námskeið og fundi þar sem val er um þátttöku. Finna þarf úrræði sem henta hverjum og einum sem oft geta verið önnur en þeir pakkar sem í boði eru. Þannig þarf að vinna úrræðin í samvinnu við þá sem eiga að nota þau og gæta þess að ekki sé búið að setja mikla fjármuni í tilbúin úrræði sem síðan eru ekki nýtt.

Það sem fyrst og fremst virðist duga eru persónuleg samskipti hins atvinnulausa og aðila sem hann treystir fyrir sínum málum. Það að vera ungmenni án atvinnu hefur örugglega afar slæm áhrif á sjálfsmyndina. Þessi ungmenni hafa mjög oft boðið skipbrot í skólakerfinu og því valið þá ágætu leið í lífinu að fara út í atvinnulífið og nú upplifir þessi hópur aðra höfnun þar sem atvinnulífið hefur ekki þörf fyrir krafta þeirra. Þetta upplifa þau svolítið hvert á sinn hátt og þurfa stuðning til að vinna sig út úr því hvert á sinn hátt. Ég hef nú fengið tækifæri til að reifa hugmyndafræði mína í afar stuttu máli til lausnar þessu verkefni og hlakka til að fá viðbrögð hæstv. ráðherra við henni.