138. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2010.

störf viðræðunefndar um einkaframkvæmdir.

355. mál
[14:14]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Í þeim efnahagsvandræðum sem að okkur steðja hafa menn verið að leita ýmissa leiða til að halda uppi framkvæmdastigi og fjárfestingum í landinu. Það er auðvitað svo að aðstæðurnar í þjóðarbúinu gera það að verkum að við höfum orðið að draga saman seglin í fjárfestingum hjá hinu opinbera. Á sama tíma hafa fyrirtæki líka verið að draga úr fjárfestingum af eðlilegum ástæðum, hátt vaxtastig og almennir erfiðleikar í rekstrarskilyrðum fyrirtækjanna hafa gert það að verkum.

Sú hugmynd hefur komið upp hvort ekki mætti nýta þá gríðarlega miklu fjármuni sem eru til staðar í lífeyrissjóðum okkar í fjárfestingar innan lands til að halda uppi atvinnustigi og skapa eftirspurn í þjóðfélaginu sem okkur liggur svo mikið á. Lífeyrissjóðir okkar hafa gífurlega mikla fjármuni sem þeir þurfa að fjárfesta og þegar þannig er í pottinn búið þurfa þeir að vanda mjög mikið sínar fjárfestingar. Það gengur auðvitað ekki að lífeyrissjóðirnir leggi fjármuni í verkefni sem ekki gefa þeim hæfilegan arð til baka. Lífeyrissjóðirnir eiga að standa undir lífeyri okkar í framtíðinni og þeir hafa því miklar skyldur í þessum efnum.

Eitt af því sem menn hafa rætt í þessu sambandi er sú spurning hvort ekki mætti nota þá gífurlegu fjármuni sem eru til staðar í lífeyrissjóðunum og þarf að ávaxta til að standa undir verkefnum af ýmsum toga sem ríkið vill fara í og eru arðsamar. Auðvitað er á vissan hátt dálítið verið að plata ríkisreikninginn með þessum hætti en látum það liggja milli hluta. Í þessu sambandi hafa menn verið að nefna ýmis verkefni. Nefnd hefur verið bygging Landspítalans, hátæknisjúkrahússins sem svo hefur stundum verið kallað, gerð Vesturlandsvegar og Suðurlandsvegar með breikkun, samgöngumiðstöð eða flugstöð í Reykjavík, Búðarhálsvirkjun og örugglega er hægt að nefna fleira í þessu sambandi. 16. júní á síðasta ári var sett niður viðræðunefnd við lífeyrissjóði um fjármögnun þessara framkvæmda. Í þeirri viðræðunefnd eiga sæti fulltrúar ýmissa ráðuneyta og alþingismennirnir Ögmundur Jónasson og Skúli Helgason, báðir væntanlega áhugasamir um einkaframkvæmdir.

Ég vildi þess vegna leyfa mér, virðulegi forseti, að spyrja hæstv. fjármálaráðherra um hvað líði störfum nefndar um viðræður við lífeyrissjóði um fjármögnun framkvæmda sem skipuð var þann 16. júní 2009.

Í öðru lagi hvort teknar hafi verið ákvarðanir um hvaða verkefni verða boðin út á grundvelli einkaframkvæmdar, í framhaldi af því sem ég var hér að segja.

Í þriðja lagi hvenær fyrstu verkin verði boðin út og hvort ákveðið hafi verið hvaða verk það verði.