138. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2010.

ólöglegt niðurhal hugverka.

162. mál
[14:29]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að spyrja hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra um ólöglegt niðurhal hugverka. Spurningarnar eru nokkuð umfangsmiklar og þess vegna er þeim hér skipt niður.

Ég veit að hæstv. ráðherra hefur undirbúið sig vel fyrir þessar spurningar. Ástæðan fyrir því að ég tek þetta upp er að ólöglegt niðurhal hefur ekki verið mikið í umræðunni en það má færa full rök fyrir því að nákvæmlega enginn munur sé á því þegar fólk gerir þetta með ólöglegum hætti og þegar menn taka aðra hluti ófrjálsri hendi. Hins vegar, einhverra hluta vegna og kannski sökum þess hve auðvelt er að nálgast efni á internetinu, hafa mál þróast þannig að þetta er nálgast með allt öðrum hætti. Ég held að ég geti fullyrt, án þess að hafa skoðað það sérstaklega sjálfur eða vitna í einstakar rannsóknir, að mjög mikið er um ólöglegt niðurhal efnis. Þeir aðilar sem telja á sér brotið eru þeir aðilar sem framleiða efni og selja það með öðrum leiðum en verða að horfa upp á að efni sem þeir framleiða — nú er ég bæði að vitna til tónlistar og ekki síður myndefnis eins og kvikmynda og þátta og annars slíks — er dreift víða og fer víða án þess að þeir aðilar sem leggja út kostnað við að framleiða viðkomandi þætti eða kvikmyndir fái neitt fyrir sinn snúð. Mér sýnist á óformlegri könnun minni að t.d. yngri kynslóðum þyki sjálfsagt að hala niður hugverkum eins og kvikmyndum og oft virðist vera að yngra fólk sé komið með allra nýjustu kvikmyndirnar jafnvel áður en búið er að frumsýna þær hér á landi.

Það segir sig sjálft að þetta fyrirkomulag getum við ekki látið viðgangast. Ég held allir séu sammála um það en furðu lítil umræða hefur verið um þetta í þjóðfélaginu. Ég vildi þess vegna nota þetta tækifæri til að fá upplýsingar um hver staðan sé í þessu máli. Þess vegna spyr ég fyrst hvort hæstv. ráðherra hafi látið kanna umfang ólöglegs niðurhals hugverka. Ef svo er ekki, hyggst ráðherra láta kanna það? Það verður fyrsta spurningin í þessu (BJJ: Flóði.) spurningaflóði, kallar hv. þm. Birkir Jón Jónsson.