138. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2010.

ólöglegt niðurhal hugverka.

162. mál
[14:37]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið, sem var mjög ítarlegt. Svo að maður segi það bara eins og það er leitar maður ýmissa leiða til að skiptast á skoðunum og vekja athygli á málum eins og þessum. Það er alveg sársaukalaust af minni hálfu þó að hæstv. ráðherra fari vítt um sviðið. Það sem ég er að sækjast eftir er stefna stjórnvalda og hæstv. ráðherra í þessu máli, eins og lokaspurning mín hljóðar, þ.e. ég spyr hæstv. ráðherra beint að því.

Mér fannst ekki koma nógu skýrt fram í þessu hvort ráðherra ætlar að beita sér í því að við metum umfangið hér á landi. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við áttum okkur á því hversu stór vandinn er. Mín tilfinning er sú að — eins og kom fram í máli hjá hæstv. ráðherra — yngri kynslóðin líti á þetta með allt öðrum hætti en þeir sem eldri eru. Við sem ólumst upp við það að leigja vídeóspólur á vídeóleigum lentum í vandræðum ef við skiluðum seint og þurftum að greiða fyrir það bæði leigu og sekt. Ég umgengst yngri kynslóðirnar endrum og eins og hef svolítið verið að spyrjast fyrir um þetta og finn að hjá því er allt annað sjónarmið hvað þessa hluti varðar. Það er litið á þetta með allt öðrum hætti. Ég held að við getum ekki búið við það.

Það væri því ágætt að fá skýrar frá hæstv. ráðherra hvort hún ætlar að kanna þetta umfang og með hvaða hætti og hvort einhverjir tímapunktar væru komnir á það.