138. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2010.

úrræði gegn ólöglegu niðurhali hugverka.

253. mál
[14:44]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Já, ég reyni mitt besta í þeim efnum. Það er vissulega rétt að þetta er eitt af þeim málum sem þarf líka að ræða á alþjóðlegum vettvangi því að landamæri netsins eru önnur en hin landfræðilegu landamæri sem við miðum venjulega við.

Ef við vísum í tónlistariðnaðinn, sem er sá hluti afþreyingariðnaðarins sem hefur kannski mest verið rætt um í þessu sambandi, þau skakkaföll — það hefur verið mikið til umræðu hér á landi að sala tónlistar hefur dregist saman. Á síðastliðnum áratug dróst sala á tónlist saman um meira en þriðjung, svo að dæmi sé tekið, en útgefendur telja þó betri tíð í vændum og sennilega af því að umræðan hefur þróast mjög mikið og menn sjá fram á að það skiptir mestu máli að ná einhverri niðurstöðu sem er í sátt, bæði við útgefendur, rétthafa og síðan hinn almenna notanda.

Útgefendur hafa skipt um aðferðafræði víðast hvar í nágrannalöndum okkar. Þeir hafa lagt af þann sið að lögsækja netverja fyrir niðurhal á höfundavörðum skrám. Sú aðferð sem nýtur mestrar hylli meðal útgefenda og rétthafa um þessar mundir nefnist stigvaxandi viðbrögð, eða þrjár aðvaranir og maður er úr leik, ef svo má að orði komast. Í þeirri aðferð felst að netverjar sem stunda ólöglega skráardreifingu fá aðvörunarbréf og ef þeir láta ekki segjast getur netþjónustuaðili þeirra hægt á netsambandinu og ef það nægir ekki til er slökkt á netsambandinu tímabundið. Í Frakklandi getur það þýtt að heimili er án netsambands í allt að 12 mánuði.

Svonefnd Hatoby-löggjöf, sem felur framangreint í sér, tók gildi í Frakklandi í október síðastliðnum eftir mjög mikla pólitískar deilur og lagalegar hindranir. Ýmsir töldu að þetta væri ekki rétta leiðin að fara. Sambærilegar ráðstafanir voru kynntar af hálfu breskra stjórnvalda 20. nóvember. Þar er um að ræða lagafrumvarp sem nefnist Digital Economic Bill og það er sem sagt svipuð leið og var farin í Frakklandi. Tilkynningar eru sendar til deilenda ólöglegra skráa og viðurlög við áframhaldandi brotum felast m.a. í lokun aðgengis að netinu.

Þetta er víða til umræðu og þetta hefur líka verið til umræðu á þessum norræna vettvangi sem ég nefndi hér áðan, en menn velta því fyrir sér hvernig þetta muni síðan skila sér fyrir hinn almenna netnotanda, hvort hugsanlega sé of hart farið fram með það að loka á netsambandið. Þetta er ein leið sem er rædd.

Önnur breyting sem hefur orðið á markaði fyrir tónlist á netinu er aukin áhersla á framboð efnis. Í stað lögsókna er rætt um aðgerðir til að hvetja notendur til að taka löglega kosti fram yfir ólöglega eintakagerð. Það hefur orðið mikill vöxtur á undanförnum árum hjá tónlistarveitum á netinu þar sem tónlist er ókeypis, eða án sérstakrar greiðslu. Fyrirtæki sem bjóða slíka þjónustu er til að mynda Google, sem býður upp á tónlistarstreymi í Bandaríkjunum, og Nokia, sem lætur tónlist til niðurhals fylgja Nokia-símtækjum, og sú þjónusta sem notið hefur mestra vinsælda er Spotify-tónlistarveitan, en hugbúnaði til að tengjast henni hefur verið halað niður á sex milljónir tölva í Evrópu. Spotify dreifir ókeypis tónlist sem er kostuð af auglýsingainnskotum. Áskrifendur þjónustunnar geta losnað við auglýsingarnar með því að greiða mánaðargjald og geta um leið sett upp þjónustuna á iPhone eða á öðrum snjallsímum.

Spotify hefur í mörgum tilvikum leyst ólöglega skráardreifingu af hólmi. Skýrasta dæmið um það er frá Svíþjóð, það er hinn vinsæli Pirate Bay, eða sjóræningjaflói, sem gerði netnotendum kleift að leita auðveldlega að ólöglegum skrám. Þessi umræða hefur mjög farið vaxandi í Svíþjóð, þ.e. getum við farið einhverja millileið, heimilað ókeypis tónlist og kostað hana með einhverjum öðrum hætti en að vera að rukka sérstaklega fyrir hvert lag.

Í apríl 2009 voru fjórir aðilar dæmdir fyrir hlutdeild í höfundaréttarbrotum í tengslum við rekstur Pirate Bay og um það leyti tóku gildi í Svíþjóð lög sem skylda netþjónustuaðila til að láta af hendi upplýsingar um áskrifendur sína í meira mæli en áður. Þar vísa ég í það sem við ræddum hér áðan, aðgangur að upplýsingum um notendur netþjónustunnar, sem eru varðar af persónuverndarákvæðum, er orðinn opnari en áður var í Svíþjóð.

Reynsla undanfarinna ára hefur hins vegar verið sú að slíkar lögsóknir leiða iðulega af sér að fram koma nýjar aðferðir, tæknilegar aðferðir, til skráarskipta. Það hefur þó ekki alveg gerst að þessu sinni því 60% sænskra skráardælinga hafa dregið úr eða alveg hætt að stunda skráarskipti. Af þeim hafði helmingur breytt notkun sinni úr skráarskiptum yfir í tónlistarstreymi sem er fjármagnað með auglýsingum. Það sama er að gerast í kvikmyndaheiminum. Þar hefur efnisveitan Voddler hafið göngu sína og þar er unnt að horfa á kvikmyndir eftir pöntun og þjónustan er fjármögnuð með auglýsingum.

Ég ætla að ræða aðeins í seinna tilsvari mínu um það sem hefur verið að gerast í áskrift að netaðgangi og hvernig hún virkar. Þar taka netþjónustuaðilar í raun virkan þátt í að draga úr áhuga netnotenda á skráarskiptum með ýmiss konar þjónustu sem fylgir almennri netáskrift.